Ísland vann Austurríki á EM 2016 eftir sigurmark í uppbótartíma leiksins í París í kvöld. Ísland kemst þess vegna upp úr riðlakeppninni og keppir í 16 liða úrslitum mótsins. Leikið verður gegn Englandi í Nice á mánudaginn.
Jón Daði Böðvarsson skoraði mark í fyrri hálfleik og kom Íslandi í 1 - 0. Austurríki brenndi svo af víti í fyrri hálfleik. Ísland pakkaði í vörn í seinni hálfleik en fékk á sig mark þegar Alessandro Schöpf skoraði á 60. mínútu. Íslensku leikmennirnir vörðust svo alveg þar til venjulegur leiktími var liðinn eða þar til Arnór Ingvi Traustason skoraði á fjórðu mínútu í uppbótartíma. Um leið var leikurinn flautaður af.
Ísland gerði tvö jafntefli og vann einn leik í riðlakeppni mótsins. Fyrsti leikurinn var gegn Portúgal. Þá gerði Ísland svekkjandi jafntefli gegn Ungverjum í Marseilles.
Ísland endaði í öðru sæti F-riðils með fimm stig, eins og Ungverjar sem enduðu í fyrsta sæti. Portúgal gerði jafntefli við Ungverja í kvöld og endaði með þrjú stig í þriðja sæti. Portúgal kemst einnig áfram í 16 liða úrslit. Austurríki fékk aðeins eitt stig og kemst ekki áfram.
Tíu þúsund íslenskir stuðningsmenn stóðu vaktina í stúkunni í Saint Denis á Stade de France í kvöld og sungu hástöfum allan leikinn. Þegar um 20 mínútur eru liðnar síðan leiknum lauk eru stuðningsmenn Íslands ennþá syngjandi í stúkunni.