David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, ætlar að hætta störfum eftir að ljóst varð í morgun að hans málstaður varð undir í þjóðaratkvæðagreiðslunni um áframhaldandi veru Bretlands í Evrópusambandinu. Bretar kusu með því að yfirgefa sambandið með 52% gegn 48%. Cameron barðist fyrir áframhaldandi veru ríkisins í ESB.
Cameron hélt blaðamannafund rétt í þessu þar sem hann sagði að Bretar ættu að vera stoltir af því að í Bretlandi væri almenningi treyst fyrir því að taka ákvörðun af þessu tagi. Það yrði að virða vilja meirihlutans, og nú ættu allir að leggjast á eitt til að láta þetta ganga upp. Hann óskaði andstæðingunum til hamingju með vel heppnaða kosningabaráttu og þakkaði þeim sem unnu að baráttunni fyrir því að vera áfram í ESB.
Þá gerði hann líka tilraun til að róa markaði og sagði efnahag Breta mjög sterkan og það hefði ekki breyst. Pundið hefur fallið verulega það sem af er morgni og sömu sögu er að segja af hlutabréfaverði. Hann reyndi líka að róa einstaklinga sem eru í óvissu með sína stöðu, Breta sem búa í öðrum Evrópusambandsríkjum og Evrópubúa sem búa í Bretlandi, og sagði að á næstunni yrði engin breyting á þeirra högum.
Cameron sagði nauðsynlegt að fá nýja forystu til þess að fylgja eftir þessari breyttu stöðu Bretlands. Hann ætli þó að starfa áfram í millitíðinni og muni fara á fund Evrópusambandsins í næstu viku. Miða ætti við að nýr forsætisráðherra sé kominn til starfa eftir nokkra mánuði, helst fyrir landsfund Íhaldsflokksins í október.