Frambjóðendur til forystu í Íhaldsflokknum í Bretlandi þurfa að skila inn framboðum á fimmtudaginn, og kjósa á nýjan formann flokksins fyrir 2. september næstkomandi. Þetta var ákveðið á fundi í morgun. Flestir höfðu búist við mun lengri fresti og kosningum síðar, eins og David Cameron forsætisráðherra og núverandi formaður flokksins hafði gefið til kynna. Hann sagðist vilja nýjan formann í október.
Cameron tilkynnti sem kunnugt er að hann myndi hætta eftir að Bretar ákváðu í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir helgi að yfirgefa Evrópusambandið.
Það er ekki bara í Íhaldsflokknum sem niðurstaða atkvæðagreiðslunnar breytir miklu, því Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, er í miklum vandræðum með þinglið sitt og má segja að upplausn ríki í flokknum.
Vel á þriðja tug skuggaráðherra í Verkamannaflokknum hafa hætt frá því í gær, þegar Corbyn rak skuggautanríkisráðherrann Hilary Benn. Benn hafði sagt Corbyn að hann hefði misst trúna á honum sem leiðtoga flokksins. Tólf skuggaráðherrar Corbyns hættu störfum í gær og enn fleiri hafa hætt það sem af er degi. Corbyn hefur neitað að hætta, en líklegt þykir að hann muni fá á sig formlega vantrauststillögu.
Pundið og hlutabréf áfram á niðurleið
George Osborne, fjármálaráðherra Bretlands, reyndi í morgun að róa markaði sem opnuðu á ný með miklum lækkunum í kjölfar niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar á fimmtudaginn. Hann sagði Breta reiðubúna að takast á við framtíðina á sterkum grundvelli en að auðvitað þyrfti að aðlaga breska hagkerfið að nýjum veruleika. Hans hlutverk sé að halda efnahagslífinu stöðugu.
Óhætt er að segja að yfirlýsing hans hafi ekki borið tilætlaðan árangur, þar sem breska pundið hefur haldið áfram að lækka og er nú lægra gagnvart Bandaríkjadollar en það hefur verið í 31 ár. FTSE 100 vísitalan hefur einnig lækkað um 1,3% það sem af er morgni. Viðskiptum með bréf í bönkunum Barclays of Royal Bank of Scotland var hætt um tíma eftir að hlutabréfaverð í báðum bönkunum hafði lækkað um meira en 10 prósent á skömmum tíma í morgun. Hlutabréf í flugfélaginu Easy Jet lækkuðu um fimmtung.
Engar óformlegar viðræður við ESB
Angela Merkel, Þýskalandskanslari, tók af skarið í morgun og sagði að Evrópusambandið myndi ekki eiga í neinum viðræðum við Breta um það sem koma skal fyrr en búið er að virkja 50. greinina í Lissabon-sáttmálanum. 50. greinin kveður á um ferlið sem fer í gang þegar ríki ákveður að yfirgefa sambandið. David Cameron virkjaði ákvæðið ekki strax á föstudag eftir að úrslitin voru ljós, og í morgun sagði Osborne fjármálaráðherra að ekki ætti að gera það fyrr en búið er að gera áætlun um það hverju á að sækjast eftir í samskiptum við Evrópusambandið.
Merkel og þýska ríkisstjórnin sögðu í morgun að Bretar fengju sanngjarnan frest til að hefja þessa vegferð formlega, en það megi ekki ríkja stöðnun. Leiðtogar Þýskalands, Frakklands og Ítalíu funda einnig í Berlín í dag um útgöngu Breta úr sambandinu.