Upplýsingaskrifstofan Norðurlönd í fókus á Íslandi, Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands og Kjarninn standa fyrir opnum fundi um aðgerðir gegn skattaundanskotum. Fundurinn fer fram í Norræna húsinu milli 10 og 12 og verður streymt beint frá honum á vef Kjarnans.
Aðalgestur fundarins verður Torsten Fensby, sem leiddi sameiginlegt verkefni norrænu ríkisstjórnanna um gerð upplýsingaskiptasamninga á sviði skattamála við aflandssvæði. Fensby kom einnig til landsins í október 2013 og tók þátt í morgunverðarfundi sem fjallaði um hvort skattaskjól heyri sögunni til.
Á fundinum í dag mun Fensby ræða um baráttu sína gegn skattaundanskotum, meðal annars í ljósi nýlegra afhjúpana á Panamaskjölunum svokölluðu. Líkast til höfðu þær afhjúpanir hvergi meiri áhrif en hér á Íslandi þar sem þáverandi forsætisráðherra þjóðarinnar, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sagði af sér í kjölfar þess að greint var frá því að hann og eiginkona hans hefðu átt félag skráð í þekktu skattaskjóli.
Að lokinni framsögu Fensby og spjalli fundarstjóra við hann verða pallborðsumræður sem þátt taka í Bryndís Kristjánsdóttir skattarannsóknarstjóri, Brynjar Níelsson, varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar, og Indriði H. Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóri. Fundurinn verður á ensku og er öllum opinn.