Fjórmenningarnir sem sitja inni fyrir Al Thani málið hafa sett af stað verkefni „áhugamanna um réttlæti í svo kölluðu Al Thani máli sem nú er til rannsóknar hjá Mannréttindadómstóli Evrópu.“ Verkefnið ber heitið Dagsljós og hefur Facebook síða verið stofnuð. Vefsíðan opnar með haustinu.
Hugsað sem gagnaveita
Freyr Einarsson, fyrrverandi yfirmaður sjónvarps, frétta og íþrótta hjá 365, sér utan um verkefnið fyrir fjórmenningana, þá Ólaf Ólafsson, Sigurð Einarsson, Hreiðar Má Sigurðsson og Magnús Guðmundsson.
„Þetta verður hugsað sem gagnaveita. Við erum að byggja upp ákveðinn gagnagrunn með þeim mikla fjölda gagna sem tilheyra í málinu og vonast til þess í leiðinni að ný gögn líti dagsins ljós,“ segir Freyr í samtali við Kjarnann. „Það er ljóst að sakborningar fengu aldrei aðgengi að öllum gögnum málsins, eins og spurt er í spurningalista frá Mannréttindadómstólnum. Við ætlum að setja inn öll gögn málsins til að þau komi fram í dagsljósið.“ Þaðan komi heiti síðunnar, Dagsljós.
Facebook-síðan mun bara birta fréttir tengdar málinu
„Fréttaflutningur af málinu hefur alla tíð verið rangur,“ segir Freyr. „Það er algengur misskilninugr að einhver hafi tapað, það tapaði enginn á þessu. Bankinn græddi. Það tapaði enginn nema sjeikinn, Al Thani.“
Vann að samantekt um málið í janúar
Að sögn Freys opnar síðan með haustinu. Í janúar greindi Kjarninn frá því að Freyr væri að vinna að samantekt um Al Thani málið fyrir Almenna bókafélagið. Þá var ekki ljóst hvort úr verði bók eða skýrsla, en Freyr þvertók fyrir það þá að vera að vinna fyrir Kaupþingsmenn og undirstrikaði að samantektin væri fyrir Almenna bókafélagið.
Lénið www.dagsljos.is var skráð þann 24. febrúar síðastliðinn og á nafni Freys.