H&M er á leið til landsins, eins og Morgunblaðið greindi frá í dag. Reginn hf. og dótturfélag þess, Eignarhaldsfélagið Smáralind ehf., hafa undirritað leigusamninga við dótturfélag H&M Hennes & Mauritz AB (publ.) um húsnæði undir tvær verslanir undir merkjum H&M.
Samningarnir ná til tveggja staðsetninga. Annars vegar verslunar í Smáralind og hins vegar í miðbæ Reykjavíkur (á Hafnartorgi). Verslanirnar munu opna á árunum 2017 og 2018, að því er fram kom í Morgunblaðinu.
Þrátt fyrir að H&M, sem er ein stærsta fataverslunarkeðja heimsins, hafi aldrei rekið verslun hér á landi, þá hafa rannsóknir sýnt að markaðshlutdeild fyrirtækisins í fatainnkaupum Íslendinga er mikil og stöðug.
Kjarninn fjallaði um stöðuna eins og hún birtist hjá notendum heimilisfjármálahugbúnaðarins Meniga, fyrir árið 2013. Tæp 37 prósent notenda Meniga verslaði í H&M. Tekjuhærri hópar versla mun oftar en þeir tekjulægri. Þannig versluðu 26 prósent tekjulægsta hópsins í H&M í samanburði við 47 prósent þeirra tekjuhæstu.
Lítill sem enginn munur var á meðalupphæð sem keypt var fyrir í hvert sinn eftir tekjuhópum, en hún var rúmar 15 þúsund krónur. Sama má segja um heildarupphæð sem þeir vörðu í H&M á árinu 2013, en hún nam að meðaltali 32 þúsund krónum.
Sé litið til heildarinnar þá var markaðshlutdeild H&M 22 prósent í fatainnkaupum Íslendinga, þrátt fyrir að engin verslun hafi til þess verið staðsett á landinu. Líklegt verður að teljast að innreið H&M hingað til lands geti haft veruleg áhrif á verslun hér á landi, sé mið tekið af þessum tölum.