Kolbeinn Sigþórsson, framherji íslenska landsliðsins og franska liðsins Nantes, er í efsta sæti í kosningu á leikmanni EM hjá Sky. Kolbeinn hefur fengið yfir 20 þúsund atkvæði en Antoine Griezmann, helsta stjarna franska landsliðsins, situr í öðru sæti með um 18 þúsund atkvæði. EM lýkur síðar í dag með úrslitaleik heimamanna í Frakklandi gegn liði Portúgal. Íslenska landsliðið datt sem kunnugt er úr leik eftir 5-2 tap gegn Frökkum í átta liða úrslitum mótsins.
Alls eru tíu leikmenn á lista sem Sky tók saman, og hægt er að kjósa sinn uppáhaldsleikmann af. Aðrir leikmenn á listanum eru Aaron Ramsey (Wales), Dmitri Payet (Frakklandi), Gareth Bale (Wales), Cristiano Ronaldo (Portúgal), Leonardo Bonucci (Ítalíu), Renato Sanchez (Portúgal), Toni Kroos (Þýskalandi) og Eden Hazard (Belgíu). Ljóst er að annað hvort Kolbeinn eða Griezmann, sem að mati flestra sérfræðinga hefur verið maður mótsins hingað til, munu sigra í þessari kosningu. Ramsey, sem er í þriðja sæti, er einungis með rúmlega átta þúsund atkvæði.
Kolbeinn lék alla leiki Íslands á EM og skoraði tvö mörk, sigurmarkið gegn Englandi í 16-liða úrslitum og fyrra mark Ísland í tapinu gegn Frökkum. Griezmann hefur hins vegar skorað sex mörk og er markahæstur á mótinu. Hann getur enn bætt við þann fjölda í úrslitaleiknum í kvöld.