Hryðjuverkamaður keyrði vörubíl inn í margmenni sem fagnaði Bastilludeginum, þjóðhátíðardegi Frakklands, í borginni Nice í gær. Vörubíllinn keyrði um tvo kílómetra inn í mannhafið á um 50 kílómetra hraða á klukkustund og ökumaður hans sveigði bifreiðinni fram og til baka til þess að valda sem mestum skaða. Alls létust 84.
Mikil örvinglun greip um sig á meðal mannfjöldans sem vörubílinn keyrði inn í. Fréttir af vettvangi segja að foreldrar hafi kastað börnum sínum yfir nærliggjandi grindverk til að koma þeim undan því að verða fyrir bílnum og að troðast undir þegar fólk reyndi að flýja.
Ökumaðurinn var skotinn af lögreglu. Hann var vopnaður og samkvæmt ýmsum erlendum miðlum þá skaut hann á mannfjöldann á meðan að hann keyrði í gegnum hann. Í vörubílnum fundust ýmis skotvopn og handsprengjur. Ekki hefur fengist staðfest hvort vopnin og handsprengjurnar voru ekta eða gervi.
Samkvæmt The Guardian herma óstaðfestar heimildir að ökuskirteini 31 árs gamals manns með tvöfalt ríkisfang, fransk og túnískt, hafi fundist í vörubílnum. Enginn hefur enn sem komið er lýst yfir ábyrgð á ódæðinu.
Þetta er þriðja mannskæða hryðjuverkaárásin sem gerð er í Frakklandi á undanförnum tæpum tveimur árum.
Þann 7. janúar 2015 var ráðist inn í höfuðstöðvar skopmyndaritsins Charlie Hebdo. Þar voru tveir lögreglumenn og tíu starfsmenn blaðsins myrtir. Árásarmennirnir voru tveir bræður, Said Kouachi og Cherif Kouachi. Þeir réðust sérstaklega á blaðið, og ákveðna starfsmenn þess, vegna teikninga sem það hafði birt af Múhammeð spámanni. Nokkrar árásir í viðbót sem tengdust fylgdu í kjölfarið, meðal annars við bænahús Gyðinga í París. Alls létust 17 manns í árásunum, sem voru þá þær mannskæðustu sem framdar höfðu verið í París frá árinu 1961.
13. nóvember 2015 var framin röð hryðjuverka í París og Saint-Denis, þar sem þjóðarleikvangur Frakka, Stade De France, er. Mannskæðasta árásin var í Bataclan-leikhúsinu þar sem skotið var á áhorfendur á tónleikum bandarísku hljómsveitarinnar Eagles of Death Metal. Alls létust 130 manns í árásunum og hundruðir særðust.