Búið er að nafngreina manninn sem myrti að minnsta kosti 84 í Nice í gærkvöldi. Hann hét Mohamed Lahouaiej Bouhlel og var 31 árs gamall Frakki sem átti rætur að rekja til Túnis. Frá þessu var greint á Sky News fyrir skömmu.
Maðurinn keyrði vörubíl inn í margmenni við ströndina í Nice, en fólkið hafði safnast saman til að fagna Bastilludeginum, þjóðhátíðardegi Frakklands. Bíllinn keyrði um tvo kílómetra inn í mannhafið á miklum hraða og maðurinn er sagður hafa sveigt bílinn fram og til baka til að valda sem mestum skaða. Hann var að lokum skotinn til bana af lögreglunni.
Til viðbótar við þá 84 sem eru látnir eru 18 alvarlega slasaðir á spítala. Sky News greinir einnig frá því að að minnsta kosti 10 börn séu á meðal hinna látnu, og að 50 börn séu á spítala.
Íslensk stjórnvöld hafa sent samúðarkveðjur til Frakklands. Þá hefur utanríkisráðuneytið beint því til Íslendinga í Nice og aðstandenda þeirra að Rauði krossinn veiti sálrænan stuðning vegna atburðanna. Bent er á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og að ef hringt er frá útlöndum sé númerið +354 5801710.
Þetta er þriðja mannskæða hryðjuverkaárásin sem gerð er í Frakklandi á undanförnum tæpum tveimur árum.
Þann 7. janúar 2015 var ráðist inn í höfuðstöðvar skopmyndaritsins Charlie Hebdo. Þar voru tveir lögreglumenn og tíu starfsmenn blaðsins myrtir. Árásarmennirnir voru tveir bræður, Said Kouachi og Cherif Kouachi. Þeir réðust sérstaklega á blaðið, og ákveðna starfsmenn þess, vegna teikninga sem það hafði birt af Múhammeð spámanni. Nokkrar árásir í viðbót sem tengdust fylgdu í kjölfarið, meðal annars við bænahús Gyðinga í París. Alls létust 17 manns í árásunum, sem voru þá þær mannskæðustu sem framdar höfðu verið í París frá árinu 1961.
13. nóvember 2015 var framin röð hryðjuverka í París og Saint-Denis, þar sem þjóðarleikvangur Frakka, Stade De France, er. Mannskæðasta árásin var í Bataclan-leikhúsinu þar sem skotið var á áhorfendur á tónleikum bandarísku hljómsveitarinnar Eagles of Death Metal. Alls létust 130 manns í árásunum og hundruðir særðust.