Víðtækt lyfjanotkunar- og lyfjaprófasvindl rússneskra íþróttamanna á Vetrarólympíuleikunum í Sotsjí var undir leiðsögn íþróttamálaráðuneytisins í Rússlandi. Þetta er niðurstaða rannsóknar alþjóðalyfjaeftirlitsstofnunarinnar sem kynnt var í dag.
Lagt hefur verið til að banna Rússum að taka þátt á Ólympíuleikunum í Ríó í ágúst vegna ítrekaðrar lyfjamisnotkunar rússneskra íþróttamanna. Rannsóknin leiddi í ljós að tilraunastofa í Moskvu verndaði íþróttamennina í Sotsjí og hjálpaði þeim að hylma yfir skandalinn.
Um er að ræða sjálfstæða rannsókn á vegum lyfjaeftirlitsstofnunarinnar alþjóðlegu undir handleiðslu kanadíska lagaprófessorsins Richard McLaren. Hann leiddi einnig aðra rannsókn sem kom upp um lyfjamisnotkun rússnesks frjálsíþróttafólks sem leiddi til þess að alþjóðaólympíunefndin bannaði frjálsíþróttaliði Rússa að keppa í Ríó.
McLaren sagði að íþróttamálaráuneyti Rússlands hefði haft umsjón með því að hagræða niðurstöðum sýnatöku úr rússneskum íþróttamönnum og skipta út sýnum. Starfsfólk tilraunastofunnar hefði ekki átt tækifæri á að segja sig frá verkefninu sem var miðstýrt úr ráðuneytinu.
Í samtali við kvikmyndagerðarmenn sem vinna að heimildarmynd ljóstraði Grigorí Rodtjenkov, stjórnandi tilraunastofunnar, upp um leyndarmálið og sagði lyfjamisnotkun og svindl hafa gert rússnesku íþróttamönnunum kleift að ná gullverðlaunum á vetrarólympíuleikunum 2014. „Fólk er að fagna ólympíumeisturum en við sitjum sveitt við að skipta út þvagsýnum,“ sagði Rodtjenkov. „Getur þú ímyndað þér hvernig ólympíuíþróttir eru skipulagðar?“
„Við vorum full mönnuð, með öll tól og tæki, vorum vel að okkur, reynd og alveg tilbúin fyrir Sotsjí. Þetta gekk eins og svissneskt úr,“ er haft eftir honum í heimildarmyndinni. Rodtjenkov er að mati lyfjaeftirlitsins alþjóðlega lykilmaður í svindli Rússa. Hann gengst við öllum ásökunum á hendur honum, nema þeim að hafa kúgað fé af íþróttafólkinu. Hann segist hafa verið þvingaður til að segja af sér af rússneskum yfirvöldum eftir að fyrst komst upp um svindlið.
Viðbrögð rússneskra stjórnvalda við fyrirspurnum The New York Times um málið voru að kalla þær „áframhaldandi upplýsingaáráður um rússneskar íþróttir,“ í yfirlýsingu til rússneskra fjölmiðla. Vitnisburður Rodtjenkov og annarra vitna var talinn trúverðugur í nýju rannsókn alþjóðalyfjaeftirlitsstofnunarinnar sem kynnt var í dag.
Óvíst er hvort fleiri rússneskum íþróttamönnum verði bannað að keppa í Ríó í næsta mánuði. Thomas Bach, forseti alþjóðaólympíunefndarinnar, gaf í skyn í síðustu viku að honum þætti óréttlátt að refsa íþróttamönnum í einni íþrótt fyrir brot annarra.
Í Sotsjí vann Rússland til flestra veðlauna. Rússneskir íþróttamenn og lið unnu til 13 gullverðlauna og hlutu alls 33 verðlaun. Ólympíuleikarnir í heimalandi þeirra voru þeir lang dýrustu í sögu Ólympíuleikanna; kostuðu um 51 milljarð bandaríkjadala.