Talíbanar hafa lýst yfir ábyrgð á sprengjuárás í Kabúl í nótt. Árásin var gerð við Northgate-hótelið í borginni, sem hýsir iðulega fjölmarga erlenda starfsmenn, bæði tengdum hernaði og ýmsum stofnunum.
Sprengjan sprakk rétt fyrir klukkan hálftvö í nótt að afgönskum tíma. Hún var gríðarmikil og heyrðist um nánast alla borg. Reuters greinir frá því að sprengjan hafi verið bílasprengja og að í kjölfarið hafi þungvopnaðir menn sést við hótelið. Þeir komust ekki inn á það, samkvæmt fréttum, en hótelið er girt af og mikil öryggisgæsla er þar.
Í kjölfar sprengingarinnar varð borgin einnig rafmagnslaus í stutta stund. Lögreglustjórínn í Kabúl segir að einn lögreglumaður hafi látið lífið í kjölfar sprenginarinnar, þegar ráðist hafi verið til atlögu gegn árársarmönnunum. Tveir vopnaðir menn hafi verið drepnir. Enginn innan hótelsins særðist alvarlega.
Árásin í Kabúl var gerð viku eftir að Íslamska ríkið lýsti yfir ábyrgð á annarri árás í borginni, sem varð að minnsta kosti 80 manns að bana.