Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, hefur farið fram á að lögregla rannsaki starfshætti starfsmanna embættis Sérstaks saksóknara. Hann segir starfsmennina hafa leynt mikilvægum sönnunargögnum í sakamálum gegn sér sem hefðu hugsanlega geta leitt til sýknu hans í þeim málum sem hann hefur verið dæmdur í. Fréttastofa RÚV greindi frá þessu í kvöld.
Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði Hreiðar Má, Sigurð Einarsson, fyrrverandi stjórnarformann Kaupþings, og Magnús Guðmundsson, fyrrverandi bankastjóra Kaupþings í Lúxemborg, í svokölluðu CLN-máli í janúar þar sem þremenningunum var gefið að sök að hafa viðhaft flókin viðskipti sem voru til þess fallin að sýna bankann sterkari en hann raunverulega var. Þá hafði héraðsdómur kveðið upp úrskurð um að sakborningarnir ættu rétt á aðgengi að öllum þeim gögnum sem embætti Sérstaks saksóknara hefði aflað úr tölvukerfi Kaupþings. Hreiðar Már telur að aðgengi að öllum gögnunum hafi ráðið úrslitum um að hann hafi verið sýknaður í málinu.
Hreiðar Már er, ásamt þeim Magnúsi Guðmundssyni og Lárusi Welding, sá einstaklingur sem Sérstakur saksóknari ákærði oftast eða alls fjórum sinnum. Hreiðar Már hefur tvisvar verið sakfelldur í Héraðsdómi í málum sem Sérstakur saksóknari hafði til rannsóknar; fyrst í Al Thani-málinu í desember árið 2013, sem Hæstiréttur staðfesti svo, og svo í Marple-málinu í október í fyrra.
Í CLN-málinu voru Hreiðar Már og Sigurður Einarsson ákærðir fyrir stórfelld umboðssvik með því að lána fjórum eignarhaldsfélögum 260 milljónir evra. Félögin fjögur launuðu féð áfram til tveggja annarra félaga sem notuðu það til að kaupa lánshæfistengd skuldabréf (Credit Linked Notes, eða CLN) sem tengd voru skuldatryggingarálagi Kaupþings.
Þegar þýski bankinn Deutsche Bank hóf veðköll vegna málsins fengu síðari félögin tvö 260 milljónir evra til viðbótar lánuð. Samtals nemur lánsupphæðin 510 milljónum evra eða um 70 milljörðum króna á gengi dagsins í dag. Í ákæru sérstaks saksóknara kemur fram að talið sé að útlánin séu að öllu leyti töpuð. Þar segir einnig að mennirnir tveir hafa valdið Kaupþingi „stórfelldu tjóni“ með háttsemi sinni. Sem fyrr segir voru bankamennirnir þrír sýknaðir af þessum ákærum.
Hreiðar Már segist hafa ítrekað gagnrýnt Sérstakan saksóknara fyrir að hafa ekki veitt sakborningum fullan aðgang að þeim gögnum sem saksóknaraembættið hafði undir höndum, eftir bæði húsleit í Kaupþingi og leit í tölvukerfi hins fallna banka. Gögnin sem sakborningar hefðu fengið að sjá voru aðeins þau gögn sem embættið setti fram til rökstuðnings fyrir dómi.