Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, vill leiða lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður fyrir næstu Alþingiskosningar. Hann tilkynnti þetta í dag. Valið verður á lista flokksins á tvöföldu kjördæmisþingi í lok mánaðarsins. Þorsteinn Sæmundsson þingmaður ætlar líka að reyna við fyrsta sætið í kjördæminu.
Sigrún Magnúsdóttir og Frosti Sigurjónsson eru þingmenn flokksins í reykjavíkurkjördæmi norður, en þau ætla bæði að hætta eftir núverandi þing. Hinn þingmaður flokksins í reykjavík suður, Vigdís Hauksdóttir, ætlar líka að hætta.
„Ég hef setið á Alþingi frá árinu 2013 fyrir Reykjavíkurkjördæmi suður. Í störfum mínum hef ég m.a. lagt áherslu á heilbrigðismál, skattamál og málefni tengd öldruðum, og hef lagt fram frumvörp og þingsályktunartillögur þar um,“ segir Karl í tilkynningu.
Enginn kominn enn í Reykjavík suður
Karl er að færa sig um kjördæmi, en hann hefur setið fyrir Reykjavíkurkjördæmi suður hingað til. Lilja Dögg Alfreðsdóttir utanríkisráðherra hefur ekkert viljað gefa upp um hvort hún ætli að bjóða sig fram til Alþingis fyrir næstu kosningar. Hún er eini framsóknarmaðurinn sem hefur ekki gefið út ákvörðun sína. Enginn hefur enn boðið sig fram til að leiða listann í Reykjavíkurkjördæmi suður, gamla kjördæmi Karls.