McDonalds er ein þekktasta skyndibitakeðja heims, og hefur verið styrktaraðili Ólympíuleikanna um langt skeið. Í krafti þess er McDonalds eini skyndibitinn sem er í boði í Ólympíuþorpinu í Ríó, þar sem Ólympíuleikarnir eru nú í algleymingi.
Þvert á það sem margir gætu haldið, þá er staðurinn svo vinsæll að það hefur verið röð út úr dyrum nánast allan sólarhringinn. Biðin eftir afgreiðslu og mat var orðin svo löng að staðurinn brá á það ráð að takmarka pantanir hvers og eins við 20 hluti af matseðlinum til þess að stytta biðina.
Washington Post fjallaði ítarlega um þetta McDonalds æði í síðustu viku og síðan þá hefur það vakið athygli í fjölmiðlum víða um heim. Blaðamaður Washington Post sagði að þetta væri eiginlega eini fastinn í Ólympíuþorpinu – röðin fyrir utan McDonalds. Þegar hann fór á svæðið og talaði við sundmanninn Brandon Schuster frá Samóa-eyjum voru 53 á undan Schuster í röðinni. „Við erum brjóstumkennanleg. Það er rigning og við erum að bíða í röð eftir McDonalds.“
Time-tímaritið fór enn lengra með málið og talaði við næringarfræðing um áhrifin af McDonalds-áti á íþróttafólkið. Niðurstaðan er sú að Ólympíufarar hafa hraðari efnaskipti og geta höndlað óhollustuna miklu betur en við hin. „En það breytir ekki þeirri staðreynd að þetta er ekki það besta fyrir íþróttafólk í keppni,“ segir Dan Benardot næringarfræðingur.
Hluti ástæðunnar fyrir vinsældum McDonalds er takmarkað matarúrval íþróttafólksins og þjálfaranna. Það er matsalur í stóru tjaldi og einn veitingastaður með brasilískum mat, en maturinn þykir almennt ekki góður. Önnur ástæða er að maturinn á McDonalds er ókeypis fyrir íþróttamenn og þjálfara, eins og annar matur í þorpinu, einmitt vegna þess að McDonalds er styrktaraðili.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem McDonalds er í boði fyrir Ólympíuíþróttafólk, heldur eru leikarnir í ár þeir tíundu í röð þar sem skyndibitakeðjan er opinberi skyndabitastaður Ólympíuleikanna. Tengslin við Ólympíuleikana hófust þó á leikunum 1968, þegar flogið var með hamborgara til bandaríska íþróttafólksins sem keppti á leikunum í Grenoble í Frakklandi það ár.
Einhverjir hafa beðið þar til þeir hafa lokið keppni með að fá sér hamborgara, líkt og ástralski badminton-spilarinn Sawan Serasinghe sem sjá má á myndinni hér að ofan. Aðrir verðlauna sig eftir góðan árangur. En sumir koma bara reglulega hvort sem þeir eru enn í keppni eða ekki. „Kínverska körfuboltalandsliðið kemur hingað á hverjum degi, allan daginn,“ sagði einn starfsmaður McDonalds við blaðamann Washington Post. „Þeir borða Big Mac klukkan níu á morgnanna. Það er klikkað.“
Hlauparinn Usain Bolt, sem nýverið varð fyrsti maðurinn til að vinna gullverðlaunin fyrir 100 metra hlaup þrenna Ólympíuleika í röð, er aðdáandi kjúklinganagganna hjá skyndibitakeðjunni, líkt og sjá má hér að neðan. Hann greindi frá því í ævisögu sinni árið 2013 að á Ólympíuleikunum í Kína fyrir átta árum hafi hann borðað um 100 kjúklinganagga á dag, af þvi að honum þótti kínverskur matur svo skrýtinn. Á þeim Ólympíuleikum vann hann þrenn gullverðlaun og setti heimsmet í hverri grein.