Eftir kröftug mótmæli, þar sem forsvarsmenn samskiptamiðilsins Facebook voru sakaðir um grófa ritskoðun, fór sögufræg mynd verðlaunaljósmyndarans Nick Ut, af níu ára nakinni stúlku koma hlaupandi undan Napalm sprengju í Víetnam-stríðinu, aftur í birtingu. Hún hafði verið tekin út af vefnum, allt í einu, af Facebook.
Bannið mætti mikilli andstöðu, ekki síst í Noregi, þar sem fjölmiðlar mótmæltu banninu strax kröftuglega og bentu á hið augljósa, að þarna væri Facebook farið að ritskoða notendur með óeðlilegum hætti.
Erna Solberg forsætisráðherra var meðal þeirra sem settu myndina inn á Facebook-síðu sína og mótmælti hún framferði Facebook harðlega.
Facebook breytti um stefnu, síðdegis í gær, og var þá sagt að myndin hefði sögulegt gildi og að það myndi vega þyngra en að eitt barn skuli vera nakið á myndinni.
Myndin var tekin 8. júní 1972 í þorpinu Tang Bang. Ut var þá ljósmyndari fyrir AP, 21 ársgamall, og náði einstökum myndum af skelfilegum afleiðingum Napalm-sprengjuregns Bandaríkjahers. Börn komu hlaupandi undan eldhafinu og beint í áttina að Ut, sem myndaði atburðarásina. Hann hlaut Pulitzer verðlaunin fyrir myndina. Árið 2012 fékk hann heiðursverðlaun Pulitzer fyrir framlag sitt til blaðaljósmyndunar á 40 ára ferli, sem hófst með ferð hans til Tang Bang.