Sverrir Ólafsson, sem var sérfróður meðdómari í héraðsdómi Reykjavíkur í hinu svokallaða Aurum-máli, segir að margt bendi til þess að annað hvort vanhæfni eða óheiðarleiki hafi átti sér stað hjá embætti sérstaks saksóknara með tilliti til meðferðar gagna í Aurum-málinu. Sverrir spyr sig hvort að embættið hafi verið að leyna gögnum í öðrum mikilvægum málum og segir að það verði að taka nýlegan áburð Hreiðars Más Sigurðssonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings sem ákærður hefur verið í fjölda hrunmála, um slikt alvarlega.
Það sé skoðun sumra að embættið hafi sýnt af sér fordæmalausan ásetning til að sakfella bankamenn, hvað sem það kostar jafnvel þótt það krefjist þess að ólöglegum vinnubrögðum sé beitt. Ekki hafi skort á stuðningi frá reiðri þjóð við þessi verk, sem virðist telja fangelsun mikilvægari en réttmæt málsmeðferð. „Ég hef heyrt þá skoðun setta fram að ef til vill séu sakfellingar í nokkrum banka- eða hrunmálum rangar, en að það sem skipti höfuðmáli sé að réttir menn voru dæmdir. Maður trúir varla eigin eyrum þegar maður heyrir slíkar athugasemdir.“
Þetta kemur fram í grein sem Sverrir skrifar í Morgunblaðið í dag.
Er bróðir Ólafs Ólafssonar
Sverrir er bróðir Ólafs Ólafssonar, sem hlaut þungan dóm í hinu svokallaða Al Thani-máli. Hann var einn þeirra dómara sem sýknaði Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis, Magnús Arnar Arngrímsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs bankans, Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrrverandi aðaleigandi Glitnis, og Bjarni Jóhannesson, fyrrverandi viðskiptastjóri bankans í málinu sumarið 2014.
Hann komst í kastljós fjölmiðla þegar hann gagnrýndi embætti sérstaks saksóknara harðlega, eftir að Ólafur Þór Hauksson hafði látið hafa eftir sér að hann hefði gert athugasemdir við setu Sverris í fjölskipuðum dómi í Aurum-málinu, ef hann hefði vitað að hann væri bróðir Ólafs. Sverrir gaf lítið fyrir þessar skýringar Ólafs Þórs og sagði þær bera vott um örvæntingu til þess eins að veikja sýknudóminn í málinu. Í apríl í fyrra ómerkti Hæstiréttur niðurstöðu héraðsdóms í Aurum-málinu og vísaði því aftur til héraðsdóms á grundvelli þess að Sverrir hefði verið vanhæfur til að fjalla um það sökum skyldleika við bróður sinn.
Áburður um óheiðarleg vinnubrögð
Hreiðar Már, sem hefur hlotið nokkra dóma í héraði og Hæstarétti fyrir hrunmál, kærði í byrjun ágúst starfsmenn sérstaks saksóknara fyrir að hafa haldið mikilvægum sönnunargögnum frá honum og öðrum sakborningum í CLN-málinu svokallaða og þannig brotið gegn sakamálalögum, lögreglulögum og almennum hegningarlögum. Hreiðar Már og meðsakborningar hans voru sýknaðir í CLN-málinu í janúar en þeirri niðurstöðu hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar.
Grein Sverris sem birtist í morgun er mjög hörð gagnrýni á embætti sérstaks saksóknara, sem nú heitir embætti héraðssaksóknara. Hann gagnrýnir harðlega málsmeðferðina í Aurum-málinu, þar sem hann sat sjálfur sem dómari, og sérstaklega að ekki hafi verið lagt fram svokallað Damas-verðmat sem hafi sýnt að virði fyrirtækisins Aurum hafi verið í takti við það verð sem keypt var fyrir, en embætti sérstaks saksóknara taldi að hefðu verið sýndarviðskipti á allt of háu verði til að losa lánsfjármagn út úr Glitni.
Þar spyr Sverrir sig m.a. hvort embættið hafi kosið að leyna gögnum í öðrum mikilvægum málum. „Ef fram kemur áburður um slíkt, eins og núna frá Hreiðari Má, verður að taka hann mjög alvarlega í ljósi þess sem á undan er gengið. Þar sem margt bendir til að annað hvort, vanhæfi eða óheiðarleiki, hafa átt sér stað með tilliti til meðferðar gagna í Aurum-málinu, er engan veginn hægt að útiloka að slíkir atburðir hafi endurtekið sig í öðrum málum.“
Ekki til þess fallið að auka virðingu fyrir réttarkerfinu
Sverrir segir tilfellin þar sem áburður sé um óheiðarleg vinnubrögð hjá embættinu séu fleiri en þau sem hann nefnir í grein sinni. „Mér sýnist þetta vera alvarleg vanræksla af hálfu þeirra aðila sem ættu að veita ákæruvaldinu aðhald og fylgjast með vinnubrögðum þess. Nú er sú staða komin upp að önnur stofnun, þ.e. Mannréttindadómstóll Evrópu, hefur sett málsferð nokkurra dómsmála undir smásjána og krafið íslensk stjórnvöld um svör við atriðum sem tengjast þeim.[...] Það er skoðun sumra að möguleg ástæða fyrir því sé fordæmalaus ásetningur ákæruvaldsins að sakfella bankamenn, hvað sem það kostar, og koma þeim á bak við lás og slá í eins mörg ár og mögulegt er, jafnvel þó það krefjist þess að beitt sé ólöglegum vinnubrögðum, eins og símahlerunum eða afturhaldi mikilvægra gagna. Svo hefur heldur ekki skort á stuðning frá reiðri þjóð, sem stundum virðist telja fangelsun mikilvægari en réttmæta málsmeðferð. Ég hef heyrt þá skoðun setta fram að ef til vill séu sakfellingar í nokkrum banka- eða hrunmálum rangar, en að það sem skipti höfuðmáli sé að réttir menn voru dæmdir. Maður trúir varla eigin eyrum þegar maður heyrir slíkar athugasemdir.“
Hann segir að þrátt fyrir útbreidda andúð á bankamönnum sé mikilvægt að hún yfirbugi ekki virðinguna sem flestir vilji bera fyrir réttarkerfi landsins. „ Því miður virðist vera ýmislegt í hátterni ákæruvaldsins upp á síðkastið, sem er ekki til þess fallið að viðhalda, hvað þá auka, virðingu fólks fyrir réttarkerfinu í landinu.“