Algengt bensínverð í september á þessu ári er um 14 krónum lægra en á sama tíma í fyrra og búast má við að verðið muni lækka fram yfir áramót. Þetta má greina úr bensínvakt Kjarnans sem birtist nú á gagnasíðu Kjarnans.
Í bensínvaktinni er algengt bensínverð á hverjum tímapunkti sundurliðað til þess að auðvelda neytendum að skilja samsetningu bensínverðs á íslenskum markaði. Sé samsetning bensínverðs í september í ár greind þá sést að rúmlega helmingur verðsins eru opinber gjöld og skattar, eða 57,85 prósent. Líklegt innkaupaverð á bensínlítranum er aðeins 22,12 prósent og hlutur olíufélagsins er um fimmtungur af verðinu.
Fylgstu með bensínverðinu á Bensínvakt Kjarnans |
Kannaðu verðið |
Hlutur ríkisins er að miklu leyti í formi fastrar krónutölu og því hækkar hlutfallið sem rennur til ríkisins að óbreyttu samhliða lækkandi innkaupaverði. Lægst hefur samanlagður hlutur ríkisins á tímabilinu verið 43,78% í júlí 2008, en er nú með hæsta móti, hæst í febrúar 2016 - 58,04%. Hlutur olíufélagsins hefur sömuleiðis sveiflast mjög og fór nokkrum sinnum undir 12% á árunum 2009-2012, en hefur hækkað nokkuð stígandi síðan 2012 og er sömuleiðis með hæsta móti um þessar mundir þar sem hann hefur farið í allt að 24%.
Rétt er að geta þess að til þess að greina eldsneytisverðið þarf að styðjast við fyrir fram gefnar forsendur sem ekki fást opinberar upplýsingar um. Opinber gjöld, þe. hlutur ríkisins, liggur fyrir enda eru gjöldin oft föst krónutala eða hlutfallsleg. Algengt innkaupaverð verður hins vegar að áætla út frá gengi, heimsmarkaðsverði á olíu og þess háttar. Í þeim útreikningum kann að vera skekkja á hverjum tímapunkti vegna lagerstöðu, skammtímasveiflna á markaði o.s.frv. Hlutur olíufélagsins er að lokum reiknaður sem afgangsstærð. Haldgóðar upplýsingar um einstaka kostnaðarliði olíufélaganna eru ekki opinberar.
Bensínvaktin er uppfærð mánaðarlega og alltaf aðgengileg. Í nýrri könnun sem gerð var í Kjarnasamfélaginu, sem í eru þeir lesendur miðilsins sem greiða til hans mánaðarlega, kom í ljós að þeir vildu aukna áherslu á umfjöllun um neytendamál. Bensínvaktin er fyrsta skrefið sem Kjarninn stígur til að bregðast við þeim ábendingum.
Fyrir áhugafólk um eldsneytismarkaðinn og samkeppnisaðstæður á honum er einnig rétt að benda á að opin fund Samkeppniseftirlitsins um málefnið sem fram fer á morgun, 20. september klukkan 9:00 í Hörpu. Fundurinn er haldinn í tengslum við markaðsrannsókn eftirlitsins á eldsneytismarkaðnum. Þar verður fjallað um samkeppni á erlendum eldsneytismörkuðum auk þess sem pallborðsumræður verða um samkeppnisaðstæður á þeim íslenska. Frekari upplýsingar um fundinn og markaðsrannsókn Samkeppniseftirlitsins er hægt að finna hér.