Starfsfólk Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ) fær greitt launauppbót sökum álags í tengslum við þátttöku A-landsliðs karla á EM í Frakklandi í sumar, þar sem liðið komst í átta liða úrslit. Uppbótin mun samsvara mánaðarlaunum hvers starfsmanns. Stjórn KSÍ samþykkti þetta á fundi í júlí. Frá málinu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, bar fram tillöguna þegar hún var fyrst lögð fram en þá gerði hún ekki ráð fyrir að hann sjálfur myndi fá launauppbót. Í ágúst lagði Gylfi Þór Orrason, gjaldkeri og formaður fjárhagsnefndar KSÍ fram nýja tillögu fjárhagsnefndar þess efnis að Geir, sem var með um 1,4 milljónir króna í laun á mánuði árið 2015, fengi einnig greiðslu. Geir vék af fundi þegar sú tillaga var afgreidd, og samþykkt. Fréttablaðið fékk ekki uppgefið hversu háar greiðslurnar námu að krónutölu en ætla má að þær nemi nokkrum milljónum króna hið minnsta.
Jón Rúnar Halldórsson, formaður knattspyrnudeildar FH, gagnrýnir greiðslurnar í Fréttablaðinu. Honum finnist greiðslurnar í hæsta máta óeðlilegar og að KSÍ þurfi að upplýsta um hvaða heimildir séu fyrir greiðslunum og hvernig þær komu til.
Um miðjan ágúst var greint frá því að aðildarfélög KSÍ fái 453 milljónir króna sem þau skipta á milli sín vegna árangurs íslenska karlalandsliðsins á EM í Frakklandi í sumar. Fjármunirnir skiptast á milli félaga eftir árangri þeirra í deildarkeppni síðastliðin þrjú ár. Hæstu greiðsluna fá fimm úrvaldsdeildarfélög: Fylkir, Breiðablik, Valur, Stjarnan og ÍBV. Þau fá 18,2 milljónir króna í sinn hlut hvert. Lægsta upphæð þeirra liða sem leika í dag í Pepsí-deild karla fær Víkingur Ólafsvík, eða 14,3 milljónir króna.