Pundið veiktist mikið gagnvart helstu viðskiptamyntum í gær, eftir sex prósent fall við opnun markað í Asíu, en fallið var meðal annars tengt við neikvæðar fréttir Financial Times þar sem Francois Hollande, forseti Frakklands, sagði að Bretar myndu ekki fá neina silkimeðferð við útgönguna úr Evrópusambandinu.
Frá því að almenningur í Bretlandi kaus með Brexit í júní síðastliðnum hefur pundið veikst mikið. Gagnvart krónunni nemur veikingin tæplega 30 prósentum. Í fyrra kostaði það 206 krónur en nú er það komið niður í 142 krónur.
Á vef breska ríkisútvarpsins BBC segir að hagsmunasamtök fyrirtækja í bresku atvinnulífi, berjist nú fyrir því að bresk stjórnvöl tryggi áframhaldandi hagstæða viðskiptasamninga við Evrópulönd, sem séu með sambærilegum ákvæðum og fylgja Evrópusambandsaðild og samstarfi á innri markaði sambandsins. Miklir hagsmunir eru sagðir í húfi, og mikilvægt sé að tryggja þá vel í þágu bresku þjóðarinnar.
Veiking pundsins hefur mikil áhrif á útflutning frá Íslandi til Bretlands, en um tólf prósent af vöruútflutningi Íslands er til Bretlands. Það eru einkum sjávarafurðir sem fara til Bretlands.
Þá koma um 19 prósent af erlendum ferðamönnum frá Bretlandi, en í fyrra voru þeir 241 þúsund. Þeim hefur fjölgað um 30 prósent það sem af er ári, þrátt fyrir að Ísland sé nú orðið dýrar í pundum talið en það var í fyrra, og gera flestar spár ráð fyrir því að ferðamönnum muni halda áfram að fjölga.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hefur boðað að formlegt útgönguferli Bretlands hefjist á næsta ári, en óljóst er hversu langan tíma það mun taka að semja um útgönguna í smáatriðum og forsendur hennar.