John G. Stumpf, stjórnarformaður og forstjóri bandaríska bankans Wells Fargo, tilkynnti í dag að hann væri hættur hjá bankanum. Hann skrifaði stjórnarmeðlimum bréf þar sem hann sagðist ætla að hætta störfum. „Ég hef alltaf einbeitt mér að stjórnun fyrirtækisins, en tel að það sé því fyrir bestu að ég hætti störfum,“ sagði Stumpf í stuttri yfirlýsingu sem vitna er til í frétt New York Times.
Wells Fargo hefur verið mikið í umræðunni í Bandaríkjunum eftir að kom í ljós að bankinn hafði í leyfisleysi opnað reikninga án þess að viðskiptavinir bankans hefðu haft vitneskju um það.
Bankinn sjálfur rannsakar nú hvernig tvær milljónir bankareikninga voru opnaðir án leyfis viðskiptavina á yfir fimm ára tímabili, en innanhúsrannsókninni er ekki lokið. Bankanum hefur þegar verið gert að greiða 185 milljónir Bandaríkjadala í sektir, eða sem nemur um 23 milljörðum króna.
Ein þeirra sem gagnrýndi Stumpf harðlega, eftir að málið kom upp, var Elizabeth Warren. Hún var meðal bandarískra þingmanna sem yfirheyrði hann, þegar hann kom fyrir þingnefnd til að tjá sig um málið.
Wells Fargo hefur fallið mikið í verði að undanförnu, og er ekki lengur verðmætasti banki Bandaríkjanna, líkt og hann var áður en fyrrnefnt mál kom upp. Markaðsvirði hans er nú 237 milljarðar Bandaríkjadala, en það var tæplega 280 milljarðar Bandaríkjadala um mitt þetta ár.