Sérfræðingur HSBC bankans í New York, Murray Gunn, segir að líkur á verulegu falli hlutabréfa á mörkuðum séu núna töluverðar. Margt bendi til þess að fjárfestar, ekki síst sjóðir og stærri fjárfestar, muni selja bréf á næstu misserum með tilheyrandi verðfallsáhrifum.
Í bréfi sem hann sendi á viðskiptavini bankans 11. október síðastliðinn, og vitnað er til á vef Bloomberg, kemur fram að margir þættir séu að valda óróleika. Þeir eru ekki allir í Bandaríkjunum, heldur einnig í Evrópu.
Fjárfestar eru sagðir horfa með áhyggjum á kosningarnar í Bandaríkjunum 8. nóvember og hvaða þýðingu þær muni hafa fyrir markaði, en við forsetaskipti hafa sögulega oft komið töluverðar sveiflur á hlutabréfamörkuðum.
Hlutabréfavísitölur allra helstu hlutabréfamarkaða heimsins í gær lækkuðu um 0,7 til eitt prósent, og búast sérfræðingar HSBC við frekari lækkunum á næstunni og jafnvel verulegu verðfalli, eins og áður sagði.