Fermetraverð á höfuðborgarsvæðinu er hæst í 101 Reykjavík eða um 462 þúsund krónur og hefur fermetrinn í þessu hverfi einnig hækkað mest frá árinu 2010, að því er segir í nýrri skýrslu Íslandsbanka um íbúðamarkaðinn.
Fermetraverð er svo næsthæst á Seltjarnarnesi, 411 þúsund krónur, og þriðja hæst í 107 Reykjavík eða 406 þúsund krónur. Þar á eftir kemur svo 105 Reykjavík þar sem að fermetraverð er um 385 þúsund krónur.
Áðurgreind svæði eru jafnframt þau sem hækkað hafa mest allra svæða á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2010 eða á bilinu 41 til 48 prósent.
Fermetraverð er lægst í Breiðholtinu, póstnúmerum 109 og 111, og á Álftanesi, póstnúmeri 225, eða á bilinu 281 til 299 þúsund krónur, að því er segir í skýrslunni.
Verð íbúða á Álftanesi hefur hækkað minnst frá árinu 2010 eða sem nemur þrettán prósentum. „Hátt fermetraverð og verðhækkanir fylgjast nokkuð vel að frá árinu 2010 og því fermetraverð almennt að hækka meira í dýrari hverfunum. Þó eru nokkrar undantekningar þar á og t.d. áhugavert að sjá að verð í Breiðholtinu (póstnúmeri 111), sem er þriðja ódýrasta hverfið, hefur hækkað um 30% frá árinu 2010. Skýringin gæti falist í því að í póstnúmeri 111 er talsvert um smærri íbúðir en þær hafa hækkað hlutfallslega meira en þær sem stærri," segir í skýrslunni.
Þrjár af hverjum fjórum íbúðum í póstnúmeri 111 eru minni en 110 fermetrar að stærð og er hlutfallið þar því svipað og í miðbænum þar sem að um 77 prósent allra íbúða eru undir 110 fermetrum. Til samanburðar þá stendur þetta hlutfall í rúmlega 52 prósentum í póstnúmeri 109 sem er einnig í Breiðholtinu.
Í skýrslunni birtist spá sem gerir ráð fyrir að fasteignaverð muni hækka um sem nemur um 30 prósentum út árið 2018.