Vestmannaeyjar er draumasveitarfélagið samkvæmt úttekt Vísbendingar, en árlega hefur ritið metið fjárhagslegan styrk sveitarfélaga og tekið heildarniðurstöðurnar saman. Úttektin byggir á ársreikningum sveitarfélaga og er farið rækilega fyrir skuldir, tekjur, íbúafjölda, eignir og grunnrekstur, bæði A-hluta og B-hluta í efnahagsreikningi þeirra.
Heildarskuldbindingar sveitarfélaganna í landinu fóru úr 553 milljörðum króna árið 2014 í um 579 milljarða árið 2015 sem er raunminnkun um tvö prósent, að því er segir í úttektinni. „Hlutfall heildarskulda (með skuldbindingum) var um 171% af tekjum á ári hjá sveitarfélögunum í heild, en var 177% árið áður. Skuldir sveitarfélaganna jukust því minna en tekjur og staðan batnaði miðað við þennan mælikvarða. Lengi vel hefur mælikvarðinn skuldir á íbúa verið talinn gefa góða vísbendingu um fjárhagslega stöðu sveitarfélags. Í árslok 2015 var þessi mælikvarði um 1.750 þúsund krónur á mann sem er 50 þúsund krónum hærra en árið áður. Að raungildi er það aukning um rúmlega 1 prósent," segir í umfjölluninni.
Nettóskuldir, það er skuldir að frádregnum veltufjármunum, voru 490 milljarðar króna í árslok en voru 480 milljarðar króna árið áður.
Skuldugasta sveitarfélagið samkvæmt þessum mælikvarða (sjá töflu 2) er Reykjanesbær með 2,6 milljónir króna í skuld á íbúa og hefur aukist um 100 þúsund krónur frá fyrra ári.
Grindavík er í öðru sæti á eftir Vestmannaeyjum með einkunina 8,1 og Fjallabyggð í því þriðja með 7,5. Þau sveitarfélög sem lengst af hafa verið á toppnum í úttekt Vísbendingar, Garðabær (7,3) og Seltjarnarnes (7,1) eru nú í 4. og 8. sæti.
Seltjarnarnes hefur verið draumasveitarfélagið undanfarin tvö ár og Garðabær var draumasveitarfélagið fjögur ár í röð, 2010-2013.
Nokkur sveitarfélög fá yfir 7,0. Þau eru Hornafjörður, Snæfellsbær og Bláskógabyggð.
Á botninum eru Reykjanesbær (2,8),
Fljótsdalshérað (2,7), Bolungarvík (2,6)
og Skagafjörður (2,4). Staða allra þessara
sveitarfélaga er mjög þröng.