Theresa May, forsætisráðherra Bretlands og formaður Íhaldsflokksins, sagði á fundi með bankamönnum Goldman Sachs bankans, að Brexit, það er útganga Bretlands úr Evrópusambandinu, geti orðið efnahagslega erfið fyrir Bretland.
The Guardian birti í gær hljóðupptöku af erindi sem May hélt á fyrrnefndnum fundi sagði hún að það væri „mikilvægt atriði fyrir breskan efnahag að vera hluti af 500 milljóna íbúa viðskiptasvæði,“ og vitnaði þar til innri markaðar Evrópu. Hún sagði að þátttaka Bretlands í Evrópusambandinu væri einnig mikilvæg til að tryggja öryggi í Bretlandi, og talaði frekar fyrir því að Bretland ætti að vera í Evrópusambandinu vegna þessara mikilvægu hagsmuna.
Stjórnarandstæðingar í Bretlandi gagnrýndu May harðlega fyrir orð sín á fundinum með bankamönnum Goldman Sachs, og sögðu þau sýna að May hefði leikið tveimur skjöldum í kosningabaráttunni fyrir Brexit, en orðin féllu á lokuðum fundi um mánuði áður en niðurstaðan úr Brexit-kosningunum var ljós.
May hefur sagt að Bretland muni fara úr Evrópusambandinu og er gert ráð fyrir að það gerist árið 2019, en ekkert er þó öruggt í þeim efnum ennþá.
Pundið hefur fallið verulega á undanförnum mánuðum gagnvart helstu viðskiptamyntum, og hefur samkeppnisstaða Bretlands breyst mikið á skömmum tíma. Pundið kostar nú 139 krónur en fyrir ári kostaði það 206 krónur.
Bretland er eitt stærsta viðskiptaland Íslands en um 19 prósent erlendra ferðamanna komu þaðan í fyrra og 12 prósent af öllum vöruútflutningi var til Bretlands. Einkum og sér í lagi er Bretland mikilvægur markaður fyrir sjávarafurðir.