Hagvöxtur í Bandaríkjunum, stærsta þjóðarhagkerfi heimsins, var 2,9 prósent á þriðja ársfjórðungi þessa árs, og töluvert fyrir ofan flestar spár, sem höfðu gert ráð fyrir 2 til 2,5 prósent hagvexti. Þetta er mesti hagvöxtur sem mælst hefur í Bandaríkjunum í tvö ár.
Beðið var eftir þessum tölum með nokkurri eftirvæntingu enda er þetta síðasta uppfærða mælingin á hagvexti sem birtist fyrir forsetakosningarnar 8. nóvember. Búist er við því að Demókratar muni nýta sér þessar tölur til að koma þeim upplýsingum á framfæri við kjósendur, að Demókrötum sé best treystandi fyrir stjórnun efnahagsmála, og þar með eigi að kjósa Hillary Clinton sem næsta forseta.
Eins og mál standa nú, þegar 10 dagar eru til kosninga, þá hefur Hillary forystuna í flestum könnunum. Vefurinn FiveThirtyEight telur 81,6 prósent líkur á að Hillary vinni, en 18,4 prósent að Trump hafi sigur. Líkurnar voru meira Hillary í hag, fyrir nokkrum vikum, en ennþá eru þær þó afgerandi Hillary í hag.
Á öðrum ársfjórðungi var hagvöxturinn töluvert minni, eða 1,4 prósent. Um þessar mundir mælist atvinnuleysi í Bandaríkjunum rúmlega 5 prósent.