Fylgi við Sjálfstæðisflokkinn vex enn í annari kosningaspá dagsins, daginn fyrir kjördag. Kosið verður til Alþingis í sex kjördæmum á morgun, laugardaginn 29. október. Á landsvísu mælist Sjálfstæðisflokkurinn stærstur með 24,9 prósent atkvæða.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur í undanförnum niðurstöðum kosningaspárinnar mælst stærstur flokkanna sem bjóða fram í kosningunum og hefur heldur verið að slíta sig frá hinum flokkunum en hitt. Á sama tíma og Sjálfstæðisflokkurinn vex virðast Píratar dala örlítið dagana fyrir kjördag. Á landsvísu mælast þeir með 19,4 prósent fylgi.
Vinstri grænir eru með 16,5 prósent fylgi í þessari kosningaspá. Spáin byggir á niðurstöðum fjögurra síðustu kannanna á fylgi framboða til Alþingis. Sú síðasta var Þjóðarpúls Gallup sem birt var síðdegis í dag.
Framsókn og Viðreisn eru með nær jafn mikið fylgi. Framsókn mælist með 10 prósent og Viðreisn með 9,9 prósent. Björt framtíð og Samfylkingin eru einnig á svipuðum slóðum, með 6,9 prósent og 6,5 prósent. Aðrir flokkar mælast með minna en fimm prósent.
Um kosningaspána
Nýjasta kosningaspáin tekur mið af fjórum nýjustu könnunum sem gerðar hafa verið á fylgi framboða í alþingiskosningunum í haust. Í spálíkaninu eru allar kannanir vegnar eftir fyrir fram ákveðnum atriðum. Þar vega þyngst atriði eins og stærð úrtaks, svarhlutfall, lengd könnunartímabils og sögulegur áreiðanleiki könnunaraðila. Nánar má lesa um framkvæmd kosningaspárinnar hér. Kannanirnar sem kosningaspáin 28. október tekur mið af eru:
- Þjóðarpúls Gallup 24. – 28. október (vægi 28,3%)
- Skoðanakannanir MMR 19. – 26. og 26. – 28. október (vægi 24.4%)
- Þjóðmálakönnun Félagsvísindastofnunar HÍ fyrir Morgunblaðið 20. – 27. október (vægi 27,0%)
- Skoðanakönnun Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis 25. – 26. október (vægi 20,3%)
Kosningaspálíkan Baldurs Héðinssonar miðar að því að setja upplýsingarnar sem skoðanakannanir veita í samhengi. Fyrirliggjandi skoðanakannanir eru teknar saman og þeim gefið vægi til þess að spá fyrir um úrslit kosninga. Kjarninn birti Kosningaspá Baldurs fyrir sveitarstjórnarkosningarnar og reyndist sú tilraun vel. Á vefnum kosningaspá.is má lesa niðurstöður þeirrar spár og hvernig vægi kannana var í takt við frávik kannana miðað við kosningaúrslitin.
Áreiðanleiki könnunaraðila er reiknaður út frá sögulegum skoðanakönnunum og kosningaúrslitum. Einnig hefur það vægi hversu langt er síðan könnunin var framkvæmd og svo hversu margir svara í könnununum.