Breska ríkisstjórnin getur ekki virkjað ákvæði um úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu nema með samþykki breska þingsins. Þetta er niðurstaða dómstóls í Bretlandi. Stjórnvöld hyggjast áfrýja niðurstöðunni, og er niðurstöðu Hæstaréttar vænst í desember, að því er breska ríkisútvarpið BBC greinir frá.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hefur sagt að þjóðaratkvæðagreiðslan og ráðherravöld þýði að þingmenn þurfi ekki að kjósa um málið. Stjórnvöld hafi í rauninni ekki rétt á öðru en að virða niðurstöðu þjóðarinnar. Hún hefur einnig sagt að hún vilji hefja viðræður um útgöngu Bretlands úr ESB fyrir lok mars á næsta ári, en nú hefur sú áætlun nánast verið slegin út af borðinu með niðurstöðu dómstólsins. Áætlanir um úrsögn Bretlands úr ESB munu því tefjast talsvert, þrátt fyrir að ekki sé víst að þingmenn þori öðru en að fara að niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar í sumar.
50. grein Lissabon-sáttmálans er greinin sem kveður á um að aðildarríki að Evrópusambandinu geti ákveðið að segja sig úr sambandinu, með tilkynningu til leiðtogaráðs ESB. Sambandið og aðildarríkið ganga til samningaviðræðna og gera samning um það hvernig staðið skuli að úrsögn ríkisins og hvernig framtíðartengslum verði hagað.
Theresa May vildi senda þessa tilkynningu til leiðtogaráðsins fyrir lok mars á næsta ári, en ef þessi niðurstaða heldur fyrir Hæstarétti þarf að fara með málið fyrir breska þingið áður en hægt er að senda tilkynninguna til ESB.
Evrópusambandsríkin hafa sagt að ekki sé hægt að hefja viðræður um útgöngu Bretlands fyrr en búið er að virkja 50. greinina með tilkynningunni.