Íslensk stjórnvöld segja enn að verið sé að leggja lokahönd á frágang á endurheimtum á ólögmætri ríkisaðstoð, sem ríkið var dæmt fyrir að hafa ekki endurheimt fyrir EFTA dómstólnum í sumar.
ESA, eftirlitsstofnun EFTA, stefndi Íslandi fyrir dómstólnum vegna þess að ekki hafði verið brugðist við ákvörðun eftirlitsstofnunarinnar, sem úrskurðaði fyrir meira en tveimur árum síðan að íslenska ríkið hefði gert fimm ólöglega fjárfestingasamninga sem bæri að ógilda og endurheimta þá aðstoð sem veitt hafði verið.
Kjarninn greindi frá því fyrir hálfum mánuði að ESA hefði ekki fengið neinar upplýsingar frá íslenskum stjórnvöldum um það hvort þau væru farin að endurheimta þessa ólöglegu ríkisaðstoð. Kjarninn sendi einnig fyrirspurn á atvinnuvegaráðuneytið til að spyrjast fyrir um stöðu mála. Í svarinu frá atvinnuvegaráðuneytinu, sem barst fyrir helgi, kemur fram að verið sé að leggja lokahönd á frágang eins málsins, en búið sé að ganga frá öllum öðrum samningum.
Fjárfestingasamningunum var í þremur tilvikum rift, þar af tveimuar þar sem verkefnin fóru aldrei af stað og því voru engir ríkisstyrkir veittir á endanum. Þetta voru samningar vegna kísilvers Thorsils í Þorlákshöfn, sem fór aldrei af stað, og kísilvers Íslenska kísilfélagsins í Helguvík, sem fór heldur aldrei af stað. Fjárfestingasamningi við Verne Global vegna gagnavers fyrirtækisins hefur verið rift og búið er að krefja fyrirtækið um endurgreiðslu á ríkisaðstoð í samræmi við ákvörðun ESA. Samningum við Becromal vegna álþynnuverksmiðju hefur verið breytt, allar ívilnanir hafa verið felldar út og búið er að krefja fyrirtækið um endurgreiðslu. Eina málið sem stendur út af er vegna stálendurvinnslu GMR, þar sem búið er að krefjast endurgreiðslu en verið er að leggja lokahönd á frágang málsins, samkvæmt atvinnuvegaráðuneytinu. Ráðuneytið segir ekki hvort fyrirtækin séu búin að borga eitthvað til baka.
Þetta er nánast alveg sama staða og var uppi í sumar þegar dómur EFTA dómstólsins féll. Þá sagði atvinnuvegaráðuneytið að búið væri að ná samkomulagi í öllum málum nema GMR endurvinnslu, og það mál væri á lokastigum.
Kjarninn spurði ESA á nýjan leik í dag hvort búið væri að upplýsa stofnunina um þetta, en í svari stofnunarinnar kemur fram að hún hafi enn ekkert heyrt frá íslenskum stjórnvöldum um stöðu mála.
Viðvarandi vandamál
Íslensk stjórnvöld vissu allan tímann að þau hefðu gerst brotleg með ívilnunarsamningunum en sinntu því ekki að endurheimta aðstoðina, að því er fram kom í dómi EFTA dómstólsins. Stjórnvöld hafi ekki lagt fram neinar sannanir fyrir því fyrir dómi að samningarnir hafi verið ógildir eða að greiðslum til fyrirtækjanna hafi verið hætt. Þá hafi Ísland ekki sýnt fram á nákvæmar upphæðir sem ætti að endurheimta né heldur hvernig stæði til að standa að endurheimtunum.
Í viðtali við Kjarnann í ágúst sagði Gjermund Mathiesen, yfirmaður samkeppnismála hjá ESA að endurheimtur á ólögmætri ríkisaðstoð væru orðnar að viðvarandi vandamáli á Íslandi og stofnunin hefði áhyggjur af stöðu mála hérlendis.
Íslensk stjórnvöld héldu því fram fyrir dómi að upphæðirnar sem um ræðir séu mjög litlar. Mathiesen segir að upphæðirnar hafi vissulega ekki verið mjög háar, en það veki einmitt upp áhyggjur af því hvað myndi gerast í stærri málum. „Myndi þá taka ennþá lengri tíma að endurheimta ríkisaðstoðina? Það er það sem við höfum miklar áhyggjur af.“