Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu tapaði fyrir Króatíu, 2–0, í landsleik liðanna í undankeppninni fyrir Heimsmeistaramótið sem fram fer í Rússlandi 2018. Króatía er nú í efsta sæti I-riðils með 10 stig.
Fyrir leikinn voru liðin bæði með sjö stig en Króatía í efsta sæti I-riðils vegna betri markatölu úr þeim þremur leikjum sem liðið hafði spilað. Ísland er áfram í öðru sæti riðilsins með sjö stig. Úkraína er í öðru sæti með fimm stig en Úkraína og Finnland mætast síðar í kvöld. Með sigri getur Úkraína komist upp fyrir Ísland og í annað sæti riðilsins.
Ísland lék án nokkurra reglulegra byrjunarliðsmanna. Framherjarnir Kolbeinn Sigþórsson og Alfreð Finnbogason voru ekki með vegna meiðsla, eins og miðjumaðurinn Emil Hallfreðsson. Ari Freyr Skúlason, vinstri bakvörður, spilaði heldur ekki en hann glímir við sýkingu í fæti.
Fyrsta mark leiksins kom í fyrri hálfleik þegar Marcelo Brozovic skoraði laglegt mark með föstu og góðu skoti fyrir utan vítateig úr opnum leik. Ísland átti nokkur færi en náði ekki að gera mark úr þeim. Brozovic var aftur á ferðinni í uppbótartíma og skoraði annað mark Króata í leiknum eftir mistök í íslensku vörninni.