Tímaritið The Economist segir í umfjöllun sinni um stöðu mála á Íslandi að ein helsta áhættan sem íslensku efnahagur standi frammi fyrir þessi misserin sé sú að krónan styrkist of mikið gagnvart helstu viðskiptamyntum, og grafi að lokum undan samkeppnishæfni hagkerfisins, einkum útflutningsins.
Krónan hefur styrkst verulega á síðustu tólf mánuðum. Evran kostar nú 123 krónur en kostað 150 krónur um mitt ár í fyrra. Bandaríkjadalur kostar nú 113 krónur en hann kostaði 136 krónur fyrir ári síðan. Pundið, sem hefur gefið verulega eftir í kjölfar Brexit-kosningarinnar í júní, kostar nú 140 krónur en kostaði 206 krónur fyrir rúmlega ári síðan.
Styrking krónunnar kemur sér illar fyrir útflutningsfyrirtæki, ekki síst í sjávarútvegi, og segir í umfjöllun The Economist að þrátt fyrir að ferðþjónusta hafi vaxið hratt, með jákvæðum áhrifum fyrir hagkerfið, þá sé full ástæða til að fylgjast grannt með þessu. Nú sé það ekki fjármálakerfið sem sé veikast fyrir, líkt og raunin var árið 2008, heldur séu það frumatvinnuvegirnir.
Búist er við því að hagvöxtur á þessu ári verði um 5 prósent, sem er mikið í alþjóðlegum samanburði. Í greininni segir enn fremur að „stærsta áhyggjuefnið“ (biggest worry) sé meðferð á erlendum aflandskrónueigendum, í tengslum við afnám hafta.
Eins og kunnugt er hefur birst fordæmalaus herferð, með heilsíðuauglýsingum í dagblöðum og umfjöllunum á samfélagsmiðjum undir merkjum Íslandsvaktarinnar (Iceland Watch), þar sem spjótin hafa beinst að Seðlabanka Íslands og stjórnvöldum. Augljóst virðist, að aflandskrónueigendur standi að baki þessari herferð, þó það komi hvergi opinberlega fram.
Heildar aflandskrónueign þeirra nemur um 300 milljörðum, eða sem nemur um 10 prósent af árlegri landsframleiðslu, segir í greininni.