Eygló Harðardóttir, starfandi félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur sett reglugerð sem kveður á um að atvinnuleitendur fái desemberuppbót, líkt og gert hefur verið undanfarin ár. Reglugerðin kveður einnig á um það nýmæli að atvinnuleitendur með börn á framfæri sínu fái rúmlega 2.400 krónur til viðbótar fyrir hvert barn í sérstaka uppbót.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá velferðarráðuneytinu. Atvinnuleitendur sem eru tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins fá desemberuppbótina, en þeir sem hafa verið án vinnu í tíu mánuði eða lengur á árinu og staðfesta atvinnuleit á tímabilinu 20. nóvember til 3. desember munu eiga rétt á fullri desemberuppbót. Aðrir fá uppbót í hlutfalli við rétt til bóta á árinu og fjölda mánaða sem bætur hafa verið greiddar.
Uppbótin vegna barna tekur engum skerðingum, heldur verður í öllum tilvikum fjögur prósent af óskertri desemberuppbót, sem gera rúmlega 2.400 krónur fyrir hvert barn.
Samkvæmt upplýsingum frá velferðarráðuneytinu er gert ráð fyrir því að kostnaðurinn vegna þessara breytinga er á bilinu 8 til 8,7 milljónir, sem þýðir að breytingarnar muni ná til foreldra yfir þrjú þúsund barna hið minnsta.