Donald J. Trump, sem tekur við sem forseti Bandaríkjanna í janúar á næsta ári, kallaði fjölmiðlafólk í Bandaríkjunum á teppið í Trump-turninum við 59. stræti í New York í kvöld, og húðskammaði það fyrir að fjalla ekki nægilega vel um sig.
Á fundinn mættu meðal annars Martha Raddatz og David Muir frá ABC sjónvarpsstöðinni, Charlie Rose, Lester Holt og Wolf Blitzer. Samkvæmt frásögn New York Times, gagnrýndi Trump fólkið á fundinum harðlega, en í boðun til fundarins var sérstaklega áréttað um að einkafund væri að ræða.
Í umfjöllun New York Times segir að Trump hafi sérstaklega gagnrýnt Jeffrey A. Zucker, yfirmann CNN, og sagt ítrekað: „Þetta var allt rangt hjá ykkur (You got it all wrong)“.
Fundurinn er sagður hafa verið algjörlega fordæmalaus, og í engu líkur öðrum fundum þar sem fjölmiðlafólk hefur fengið rými til að ræða við forsetann eða starfsfólk hans á lokuðum fundum (off the record). Þeir séu jafnan til þess eins að efla tengsl eða að fá upplýsingar um einstök mál.
Þessi fundur var hins vegar öðruvísi, eins og margt annað sem tengist kosningunum í Bandaríkjunum.
Trump vinnur nú að því að setja saman lið sitt áður en hann tekur við stjórnartaumunum í Hvíta húsinu í janúar. Mikil fundarhöld hafa farið fram á skrifstofu hans í Trump Tower í New York. Turninn frægi er skammt frá höfuðstöðvum CNN og fleiri fjölmiðla, við 59. stræti í New York.
Í gærkvöldi sagði Trump að það yrði gott fyrir tengsl Bretlands og Bandaríkjanna ef Nigel Farage, einn af leiðtogum UKIP í Bretlandi sem barðist fyrir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, yrði sendiherra Bretlands í Bandaríkjunum.