Stærstu borgir Bandaríkjanna munu ekki breyta áætlunum sínum neitt sem snúa að því að berjast gegn mengun af mannavöldum í heiminum og hlýnun jarðar. Ef Donald Trump, nýkjörinn forseti Bandaríkjanna, mun setja ný markmið - þar sem hlýnun jarðar er afneitað - þá munu borgirnar einfaldlega ekki hlusta á það og halda áfram á sömu braut.
Þetta kom fram í máli Michael Bloomberg, fyrrverandi borarstjóra í New York, á fundi í Washington í gær með Kínverskum embættismönnum og fyrirtækjum.
Bloomberg hrósaði Kínverjum fyrir að gefa sterklega til kynna, að alveg sama hvað Trump segði, þá myndi það ekki breyta neinu um þau áform Kínverja, um að standa við skuldbindingar Parísarsamkomulagsins.
Bloomberg sagði enn fremur að sá árangur sem náðst hefði á síðustu árum hefði að nánast engu leyti komið í gegnum Bandaríkjaþing og stjórnvöld, þrátt fyrir góðan vilja, heldur hefðu það verið borgir, fyrirtæki og borgararnir sjálfir sem hefur gert mest til þess að vinna gegn alvarlegum áhrifum hlýnunar jarðar.
Sjálfur hefur Trump sagt - eftir að hann var að kjörinn - að hann muni nálgast umhverfismálaflokkinn með „opnum huga“ og segist jafnvel tilbúinn til að þess að skipta um skoðun ef hann telur það vera hið rétta, eftir að hafa fengið upplýsingar frá sérfræðingum um málaflokkinn.
Borgarstjórar New York, Philadelphiu, Seattle, Los Angeles, Washington og Chicago hafa nú formlega tilkynnt um að borgaryfirvöld muni ekki fara eftir fyrirmælum um að vísa innflytjendum úr landi sem ekki eru rétt skráðir inn í landið, eða óskráðir, komi til þess að stjórn Trumps tilkynni um slíkt.