Erdogan, forseti Tyrklands, segist tilbúinn að heimila dauðarefsingar ef frumvarp þess efnis verður samþykkt. Evrópusambandið leggst harðlega gegn dauðrefsingum og er litið á þetta stefnumál Erdogans sem ögrun við helstu þjóðarleiðtoga Evrópusambandsríkjanna.
Þá hefur Erdogan einnig hótað því að senda mörg hundruð þúsund flóttamenn til Evrópu. „Hlustið á mig: landamærin verða opnuð ef þið gangið lengra,“ sagði Erdogan í dag, beindi orðum sínum að leiðtogum Evrópusambandsríkja.
Erdogan telur Evrópusambandið hafa svikið samkomulagið frá því í mars, sem miðaði að því að ná saman um leiðir til vinna gegn miklum vanda flóttamanna frá stríðshrjáðum svæðum í nágrenni Tyrklands.
Talskona Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, lét hafa eftir sér í dag að samkomulagið frá því í mars hefði verið mikilvægt fyrir alla sem aðild áttu að því. Hótanir væru ekki hjálplegar.
Um 2,5 milljónir flóttamanna eru í Tyrklandi, flestir í flóttamannabúðum. Stærsti hópurinn kemur frá Sýrlandi. Af um 22 milljóna heildaríbúafjölda í Sýrlandi, miðað við tölur árið 2011, er talið að 12 milljónir séu á flótta, ýmist innan landsins eða utan. Flestir flóttamenn sem reyna að flýja til Evrópu fara í gegnum Tyrkland.
Frá þessu greinir breska ríkisútvarpið BBC. Erdogan hefur látið fangelsa mörg þúsund opinbera starfsmenn, þar á meðal kennara, prófessora og dómara. Þá hafa meira en 150 blaðamenn verið handteknir. Engar fréttir hafa borist af aðbúnaði þeirra sem hafa verið handteknir, en Erdogan og ráðamenn undir hans stjórn hafa neitað að veita mannréttindasamtökum upplýsingar.