Donald J. Trump, nýkjörinn forseti Bandaríkjanna, segir í færslu á Twitter-svæði sínu að til viðbótar við yfirburðasigur hans í kjörmannakosningunni þá hefði hann unnið heildarkosninguna (popular vote) einnig, ef ekki hefði verið fyrir þær „milljónir kjósenda“ sem kusu ólöglega.
Þetta kom fram á Twitter-svæði hans í dag, og hafa allir helstu fjölmiðlar Bandaríkjanna fjallað um yfirlýsinguna í dag. Hún kemur í beinu framhaldi haf því að Jill Stein, frambjóðandi Græningja, hefur farið fram á endurtalningu atkvæða í þremur ríkjum þar sem mjótt var á munum milli Hillary Clinton og Donald Trump, og vilja margir fréttaskýrendur meina það, að í þessum ríkjum hafi úrslitin í raun ráðist. Þetta eru Winsconsin, Pennsylvanía og Michigan.
Stein hefur sagt, að orðrómur um tölvuhakkarar hafi haft áhrif á útkomu rafrænnar kosningar í ríkjunum sé alvarlegur, og það þurfi að fást botn í það hvernig staðan var í raun og veru. Hillary Clinton hefur tekið undir þetta, og vísað til þess að vitað sé að tölvuhakkarar hafi verið að skipta sér af kosningabaráttunni með því að komast yfir gögn og birta þau. Þau afskipti voru rakin til tölvuhakkara í Rússlandi.
Hillary Clinton hlaut ríflega 64 milljónir atkvæða í kosningunum en Donald Trump ríflega 62 milljónir atkvæða. Þrátt fyrir það hlaut Trump muni fleiri kjörmenn en Hillary, en að lágmarki þurfti að tryggja 270 til að ná í Hvíta húsið.