Engar sannanir eru til fyrir yfirlýsingum Donalds J. Trump, sem sigraði í bandarísku forsetakosningunum 8. nóvember, um að milljónir „ólöglegra kjósenda“ hafi tekið þátt í kosningunum.
Frá þessu greindi hann á Twitter-svæði sínu í gæt, og hafa ummæli hans vakið bæði undrun og hneykslan. Engar sannanir eru til fyrir því sem hann sagði og svo virðist sem hann ætli sér ekki að sýna fram á nein gögn máli sínu til stuðnings.
Hann setti yfirlýsingu sína fram í samhengi við sigur hans í kosningunum, og í henni ítrekaði hann að hanni hafi unnið yfirburðasigur í kjörmannakosningunni og að hann hefði einnig haft sigur í heildarútkomu kosningana ef ekki hefði verið fyrir milljónir ólöglegra kjósenda.
Framboð Hillary Clinton hefur nú ákveðið að styðja kröfu Græningjans Jill Steins um að endurtelja í þremur ríkjum þar sem mjótt var á munum milli Hillary og Trumps, í Michigan, Pennsylvaníu og Winsconsin.
Í umfjöllun fjölmiðla í Bandaríkjunum, hefur komið fram að ásakanir um að kosningar hafi ekki verið löglegar, hafi oft komið fram áður í gegnum tíðina. En aldrei með viðlíka yfirlýsingum og Trump hefur nú sett fram. Í umfjöllun New York Times kemur fram að starfslið Trump hafi nú þegar sett fram yfirlýsingar þess efnis að niðurstaða kosninganna væri skýr og að hana ætti að virða.
En ef það er rétt sem Trump heldur fram, þá er líklegt að farið verði fram á endurtalningu víðar en í fyrrnefndum ríkjum. Í gærkvöldi setti hann síðan fram ávirðingar um að kosningarnar í Virgínu, New Hampshire og Kaliforníu, sem Hillary sigraði í, hafi verið verið svindl. Sakaði hann fjölmiðla meðal annars um að standa sig ekki nægilega vel hvað þessi mál varðaði. „Alvarleg vandamál,“ sagði hann síðan að lokum.