Efnt verður til fundar háttsettra embættismanna breskra og íslenskra stjórnvalda í byrjun desember til að tryggja hagsmuni beggja landa við útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Mikil vinna hefur átt sér stað á vegum ráðherranefndar við að kortleggja stöðu Íslands vegna Brexit. Málefni Brexit eru forgangsmál íslenskra stjórnvalda um þessar mundir, segir í svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans.
Undanfarnar vikur hefur ráðherranefndin kortlagt stöðuna og metið möguleikana. Í megindráttum felast kostirnir í einu af þrennu: Því að Ísland geri víðtækan fríverslunarsamning við Bretland, að EFTA-ríkin geri slíkan samning sameiginlega eða að aðildarríki EES og EFTA gerist aðilar að útgöngusamningi Breta við ESB.
„Það er ljóst að það verður að vanda vel til verka í þessu mikilvæga máli og ekki rasa um ráð fram. Við höfum átt í reglubundnum viðræðum við bresk stjórnvöld vegna viðskiptamála okkar og ég hef átt óformleg samtöl við ráðamenn um stöðuna. Í byrjun desember verður jafnframt efnt til fundar háttsettra embættismanna breskra og íslenskra stjórnvalda í London þar sem farið verður yfir málin," segir Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra.
Í Fríverslunarsamtökum Evrópu (EFTA) eru þrjú ríki auk Íslands. Það eru Noregur, Liechtenstein og Sviss. Ísland fer nú með formennsku í ráðherraráði EFTA og lagði Lilja ríka áherslu á að „ríkin séu samstíga og láti ekki ólíka hagsmuni eða samkeppni sín á milli hafa áhrif á samstarfið,“ segir í svari utanríkisráðuneytisins. Samstaða hafi verið um að EFTA-ríkin fjögur myndu vinna náið saman til að tryggja hagsmuni ríkjanna við útgöngu Breta úr ESB.
Í fyrirspurn Kjarnans til utanríkisráðuneytisins var óskað eftir upplýsingum um stöðu málefna Íslands vegna Brexit. Fréttastofa Reuters hefur flutt fréttir af því að Noregur og Bretland muni hefja samræður um viðskiptaleiðir í kjölfar útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu strax í desember.