Lagt er til í þingsályktunartillögu, sem komin er fram á Alþingi, að frestur rannsóknarnefndar um þátttöku þýska bankans Hauck & Aufhäuser Privatbankiers KGaA í kaupum á 45,8% eignarhlut ríkisins í Búnaðarbanka Íslands hf., verði framlengdur.
Í skýrslu nefndarinnar um framgang rannsóknarinnar til þingsins, sem skilað var 8. desember, er lagt til frestur til að skila skýrslu verði ekki fyrir 31. desember næstkomandi heldur frekar eins fljótt og verða má.
Alþingi ályktaði 2. júní 2016, í samræmi við ákvæði laga um rannsóknarnefndir, að fram skyldi fara rannsókn á þátttöku þýska bankans Hauck & Aufhäuser Privatbankiers KGaA í kaupum á 45,8% eignarhlut ríkisins í Búnaðarbanka Íslands hf. Samkvæmt ályktuninni skyldi rannsókninni ljúka svo fljótt sem verða mátti og eigi síðar en 31. desember 2016. Til þess að annast rannsóknina skipaði forseti Alþingis, að höfðu samráði við forsætisnefnd og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, Kjartan Bjarna Björgvinsson héraðsdómara.
Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar til forseta Alþingis, dags. 8. desember 2016 er gerð grein fyrir framgangi rannsóknarinnar, að því er segir í greinargerð með þingsálykuntartillögunni.
Kemur þar fram að nefndin hafði ráðgert, sem lokaþátt í rannsókn sinni, að boða tilgreind vitni til skýrslutöku 11. nóvember 2016. Þegar kom í ljós að þau höfnuðu slíku, eins og áður hefur verið greint frá, óskaði nefndin eftir því, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga um rannsóknarnefndir, að þau yrðu kvödd fyrir héraðsdóm sem vitni til þess að svara spurningum um rannsóknina.
Viðbrögð vitnanna við óskum rannsóknarnefndarinnar um upplýsingar hafa leitt til þess að tafir hafa orðið á störfum rannsóknarnefndarinnar og fyrirsjáanlegt er að nefndinni mun ekki takast að ljúka rannsókninni innan þeirra tímamarka sem ákveðin eru í ályktun Alþingis, segir í greinargerðinni.
Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar um framgang rannsóknarinnar er talið æskilegt að fresturinn, sem nefndinni var veittur til að skila skýrslu sinni, verði framlengdur, enda yrði að öðrum kosti viðbúið að látið yrði reyna enn frekar á umboð og heimildir nefndarinnar fyrir dómstólum ef skýrslu verður ekki skilað fyrir 31. desember nk.
Búnaðarbankinn var seldur til svonefnds S-hóps 16. janúar 2003. Einkavæðingarnefnd fékk fyrst að vita nafn erlenda bankans sem tók þátt í kaupunum viku áður. Sá banki var þýski sveitabankinn Hauck & Aufhauser. Hann var aldrei nefndur á nafn í fundargerðum einkavæðingarnefndar.
Rúmum tveimur árum eftir að Hauck & Aufhauser keypti hlut í Eglu, og þar af leiðandi í Búnarbanka, var bankinn búinn að selja hann allan til annarra aðila innan S-hópsins.
Um tveimur mánuðum eftir að S-hópurinn keypti Búnaðarbankann hófust viðræður um að sameina hann og Kaupþing. Eftir að sú sameining gekk í gegn varð sameinaður banki stærsti banki landsins og hópurinn sem stýrði honum gerði það þangað til að hann féll í október 2008, og skráði sig á spjöld sögunnar sem eitt stærsta gjaldþrot sem orðið hefur.