Amnesty International segir augljóst að stríðsglæpir séu framdir í Aleppo, þar sem fregnir herma að tugir óbreyttra borgara hafi verið teknir af lífi án dóms og laga af sýrlenska hernum. Samtökin kalla eftir því að allar stríðandi fylkingar veiti óbreyttum borgurum í Aleppo vernd hið bráðasta.
Fregnir um fjöldamorð á óbreyttum borgurum, meðal annars börnum, þar sem fólk er strádrepið með köldu blóði á eigin heimili af hersveitum sýrlenskra stjórnvalda eru ákaflega sláandi en ekki óvæntar miðað við framferði þeirra hingað til. Slíkar aftökur, án dóms og laga, myndu jafngilda stríðsglæpum, segir Lynn Maalouf, yfirmaður rannsókna Amnesty International á svæðisskrifstofu í Beirút, í tilkynningu frá Amnesty.
„Frá upphafi átakanna hafa hersveitir sýrlenskra stjórnvalda, með stuðningi Rússa, ítrekað sýnt fram á fullkomið skeytingarleysi gagnvart alþjóðlegum mannúðarlögum og algjöra lítilsvirðingu gagnvart óbreyttum borgurum. Raunar hafa óbreyttir borgarar verið skotmörk hersveita, bæði í hernaðaraðgerðum og með víðtækri beitingu á geðþóttahandtökum, þvinguðum mannshvörfum ásamt beitingu pyndinga og annarrar illrar meðferðar. Hætta er á að hersveitir stjórnvalda fremji fleiri grimmdarverk eftir því sem þær færast nær því að ná fullu valdi yfir austurhluta Aleppo. Það veldur miklum ótta hjá þúsundum óbreyttra borgara sem eru fastir í borginni,“ segir í tilkynningunni.
Undanfarna mánuði hafi heimurinn, þar á meðal öryggisráð Sameinuðu þjóðanna, horft frá hliðarlínunni á daglega slátrun óbreyttra borgara ásamt því að austurhluti Aleppo hefur verið jafnaður við jörðu og breyst í fjöldagröf. „Aðgerðarleysi heimsins, sem stendur frammi fyrir þvílíkri grimmd, er til skammar. Skortur á ábyrgð á stríðsglæpum og glæpum gegn mannkyni hefur gert stríðsaðilum kleift, þá sérstaklega hersveitum stjórnvalda, að fremja slíka glæpi í massavís.“
Í síðustu viku greindu Sameinuðu þjóðirnar frá því að hundruð manna og drengja hafa horfið af svæðum sem eru undir stjórn stjórnvalda. Amnesty hefur áður beint athyglinni að kerfisbundinni og víðtækri beitingu stjórnvalda á þvinguðum mannshvörfum, til þess að ráðast gegn óbreyttum borgurum. Þetta eru glæpir gegn mannkyni, segir Amnesty.
„Amnesty International kallar eftir því að stríðandi fylkingar tryggi óbreyttum borgurum örugga leið til að flýja átökin, aðgengi að mannúðaraðstoð og að þeir sem ábyrgð bera á stríðsglæpum og glæpum gegn mannkyni verði sóttir til saka. Amnesty International hvetur almenning til þess að skrifa undir ákall samtakanna hér.“