39 eru látnir eftir skotárás á næturklúbbinn Reina í Istanbúl í Tyrklandi í gærkvöldi. Lögregla hefur greint frá því að líklega hafi einn byssumaður verið að verki. Þegar hefur verið borin kennsl á 21 fórnarlamb og eru 15 þeirra erlendir ríkisborgarar. Á sjöunda tug til viðbótar slasaðist. Árásarmaðurinn gengur enn laus og stendur yfir umfangsmikil leit af honum. Samkvæmt fréttum erlendra miðla voru á bilinu 500-700 manns staddir á næturklúbbnum að fagna áramótunum.
Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, sendi frá sér yfirlýsingu vegna árásarinnar í morgun. Þar sagði hann að tyrkneska þjóðin myndi berjast til endaloka gegn árásum hryðjuverkahópa og þeirra sem stæðu að baki þeim. „Þeir eru að reyna að skapa ringulreið, draga úr okkar fólki og stuðla að ójafnvægi í landinu okkar með viðurstyggilegum árásum sem beinast gegn almennum borgurum[...]Við munum halda ró okkar sem þjóð, standa enn fastar saman og aldrei gefa eftir gagnvart svona skítugum leikjum.“
Hægt er að fylgjast með live-bloggi The Guardian um málið hér.