James Clapper, yfirmaður leyniþjónustumála í Bandaríkjunum, segir að brátt muni koma fram fram upplýsingar sem varpi ljósi á það hvers vegna rússneskir tölvuhakkarar stóðu fyrir árásum í aðdraganda forsetakosninganna 8. nóvember í fyrra, en þá sigraði Donald J. Trump, sem fulltrúi Repúblikana, Hillary Clinton, fulltrúa Demókrata.
Í yfirheyrslu í Bandaríkjaþingi í dag, sagði hann meðal annars, að það væru undirliggandi nokkrar ástæður fyrir því að Rússar hefðu staðið fyrir árásunum. „Ég held að við höfum aldrei staðið frammi fyrir öðrum eins inngripum eða árásum í framkvæmd kosninga í Bandaríkjunum,“ sagði Clapper, og lagði áhersla á að það væri mat helstu leyniþjónustusérfræðinga Bandaríkjanna að gögnin sýndu ótvírætt að Rússar hefðu haft afskipti af kosningunum, meðal annars með því að leka gögnum um tölvupósta Hillary Clinton og fleiri aðgerðum.
Gögnin hafa hins vegar ekki verið birt, og hefur Donald Trump sagt að engar beinar sannanir væru til fyrir þessum ásökunum. Clapper segir að gögnin muni tala sínu máli, og varpa ljósi á það sem gerðist og einnig hvers vegna. Reiknað er með því að gögnin verði gerð opinber, í það minnsta að hluta, í næstu viku, samkvæmt fréttum Wall Street Journal.
Donald J. Trump sver sig í embætti forseta síðar í mánuðinum.