Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, hefur óskað eftir fundi í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis um skýrslu starfshóps um eignir Íslendinga í skattaskjólum. Þetta upplýsir hún á Facebook síðu sinni. „Var að óska eftir fundi í efnahags- og viðskiptanefnd í komandi viku til að fá kynningu og umræðu um skýrslu starfshóps um eignir Íslendinga í skattaskjólum. Spurningar hafa vaknað af hverju skýrslan var ekki birt fyrr en samkvæmt fréttum var henni skilað í október,“ segir Katrín.
Hún segir fullt tilefni til að skoða hvort breytinga sé þörf á löggjöf sem varðar þessi mál. „Alþingi afgreiddi ýmsar breytingar til bóta í haust sem ætlað var að bæta löggjöf hvað varðar skattsvik og notkun skattaskjóla. Skoða þarf hvort nægilega vel er búið að framkvæmd skattaeftirlits og skattrannsókna. Og skoða þarf hvaða áhrif afnám hafta mun hafa á þessa hluti í framtíðinni og hvort fjármunir úr skattaskjólum hafa verið að skila sér inn í landið að undanförnu í gegnum fjárfestingaleið Seðlabankans,“ segir Katrín, en í skýrslunni er því velt upp hvort eitthvað af þessum fjármunum hafi skilað sér inn í landið í gegnum fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands.
Eins og greint var frá í fréttaskýringu á vef Kjarnans í gær, þá varð stökkbreyting á flæði fjár til aflands- og lágskattasvæða á fyrsta áratug þessarar aldar, og fjöldi aflandsfélaga í eigu Íslendinga fertugfaldaðist frá árinu 1999 og fram að hruni. Eignir í stýringu íslensku bankanna í Lúxemborg 46-földuðust á sama tímabili. Uppsafnað umfang eigna Íslendinga á aflandssvæðum frá árinu 1990 til 2015 nemur einhvers staðar á bilinu 350 til 810 milljörðum króna, og tekjutap hins opinbera á árunum 2006 til 2014 nemur líklega um 56 milljörðum króna. Á hverju ári gæti tapið vegna vantalinna skatta verið á bilinu 4,6 til 15,5 milljarðar króna.