Barack Obama flutti kveðjuræðu sína sem forseti Bandaríkjanna í heimaborg sinni Chicago í nótt. Hún var tilfinningaþrungin. Obama talaði fyrir fjölbreyttu samfélagi Bandaríkjanna og mikilvægi þess að Bandaríkin héldu í þau góðu gildi sem hefðu byggt „innflytjendalandið“ Bandaríkin upp frá rótum.
Obama var kjörinn forseti í nóvember 2008 en tók formlega við í janúar 2009, þegar miklir efnahagserfiðleikar voru vítt og breitt um heiminn. Atvinnuleysi var í kringum 10 prósent Í Bandaríkjunum þegar hann tók við en á átta ára valdatíma Obama hefur efnahagurinn styrkst og atvinnuleysið minnkað. Það mælist nú undir 5 prósent. Hann var fertugasti og fjórði forsetinn og fyrsti svarti maðurinn til að verða forseti.
Hann sagði að lýðræðið væri eitthvað sem fólk þyrfti að taka virkan þátt í. „Þið ráðið,“ sagði hann og talaði fyrir því að kosningaþátttaka þyrfti að aukast í Bandaríkjunum. Hann hrósaði Michelle Obama konu sinni, og tveimur dætrum þeirra hjóna, fyrir að standa með honum í gegnum pólitískan feril hans. „Ekkert hefur gert mig jafn stoltan og þið,“ sagði hann og beindi orðum sínum til dætra sinna.
Í ræðu sinni sagðist hann bjartsýnn á framtíð Bandaríkjanna, og hrósaði ungu kynslóðinni í landinu, sem væri snjöll, drífandi, skapandi og full af jákvæðri orku.