Donald J. Trump, verðandi Bandaríkjaforseti, vill funda með Vladímir Pútín forseta Rússlands í Reykjavík nokkrum vikum eftir að hann sest á valdastól í Washington. Þetta kemur fram í The Sunday Times í dag.
Með fundinum vill Trump horfa til áhrifanna sem leiðtogafundur Ronalds Reagans Bandaríkjanna og Mikhail Gorbatsjov, leiðtoga Sovétríkjanna, hafði en hann fór fram í Höfða árið 1986, eins og kunnugt er.
Í blaðinu segir að ráðgjafar Trumps hafi rætt um þessi mál við pólitíska ráðgjafa í Bretlandi. Þá er greint frá því að rússneskum stjórnvöldum lítist vel á Ísland sem stað fyrir fund milli Trumps og Pútíns. Trump er sagður vilja ræða um kjarnorkuvopn við Pútín og hvernig megi draga úr þeim, auk þess sem hann vill geri samskipti þjóðanna betri.
Óhætt er að segja að öll spjót hafi staðið á bæði Trump og Pútín að undanförnu, en rússnesk stjórnvöld hafa í skýrslum leyniþjónustustofnanna Bandaríkjanna verið sögð hafa beitt tölvuárásum í kosninabaráttu Trumps og Hillary Clinton til að ýta undir líkur Trumps á sigri.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sagði við mbl.is í gærkvöldi að íslensk stjórnvöld litu málið jákvæðum augum, en að hann hafi fyrst heyrt af málinu í frétt Sunday Times. „Við höfum ekki fengið neitt staðfest eða nein erindi um þetta.“ Íslendingar hafi þó alltaf verið tilbúnir að hjálpa til þegar leiðtogar heimsins hafi viljað funda. „Íslenskum stjórnvöldum hefur ekki borist erindi af þessu tagi. Ef ráðamenn í Washington DC og Moskvu munu óska þess formlega við íslensk stjórnvöld að þau skipuleggi leiðtogafund í Reykjavík mun ríkisstjórn Íslands líta það jákvæðum augum og leggja þannig sitt af mörkum til að bæta samskipti Bandaríkjanna og Rússlands, minnug leiðtogafundarins í Höfða árið 1986,“ segir í svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is.