Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, segir að breska þingið muni kjósa um Brexit-samkomulagið áður en það öðlast gildi. Þetta kom fram í ræðu hennar í dag þar sem May fór yfir helstu áherslur Breta varðandi útgöngu úr Evrópusambandinu. Gengi breska pundsins hækkaði samstundis við fréttir um að Brexit-samkomulagið verði borið undir þingið áður en frá því verður gengið. Í ræðunni sagði May enn fremur að stuðst verði við tólf meginreglur í viðræðunum og að hún vilji að Bretland hafa áfram tollfrjálsan aðgang að evrópskum mörkuðum. Samt sem áður mun Bretland yfirgefa innri markað Evrópusambandsins samkvæmt útgönguáætluninni. Greint er frá málinu á vef the Guardian.
Dómstóll í London komst að þeirri niðurstöðu í nóvember að ekki væri hægt að virkja 50. grein Lissabon-sáttmálans og hefja útgöngu Breta úr Evrópusambandinu án þess að vera það undir breska þingið fyrst. Þeim úrskurði var áfrýjað til Hæstaréttar. May hefur áður sagt að hún vilji hefja útgönguferlið í lok mars 2017 og það er gert með því að virkja 50. greinina, með bréfi til leiðtogaráðs Evrópusambandsins. Verkamannaflokkurinn, sem er í stjórnarandstöðu í breska þinginu, hefur þegar sagt að hann muni ekki reyna að stöðva eða tefja fyrir útgöngunni ef svo fer að þingið þurfi að kjósa um málið. Skuggaráðherra Skotlands og Skoska þjóðernisflokksins, Michael Russell, sagði hins vegar í byrjun nóvember að hann sjái ekki fyrir sér neinar kringumstæður þar sem þingmenn flokksins kjósi með því að virkja 50. greinina. Skotar kusu gegn útgöngu úr Evrópusambandinu.
Yfirlýsing May um að þingið fái að kjósa um Brexit breytir engu um hvað þarf til að virkja 50. greinina. En í henni felst að breska þingið mun fá að kjósa um hvaða Evrópulöggjöf það vill breyta og hvaða löggjöf á að haldast eftir útgöngu Breta.