Donald J. Trump, sjötugur fjárfestir frá New York, tekur í kvöld við valdaþráðunum í Hvíta húsinu og verður 45. forseti Bandaríkjanna. Hann sagði í ávarpi í Washington D.C:, þar sem tónleikar voru haldnir honum til heiðurs, að hann væri mættur til að „breyta stjórnun landsins“. Hann var kokhraustur þegar hann gekk fram á sviðið og veifaði til áhorfenda. „Ég mun gera Bandaríkin frábær aftur,“ sagði Trump, áður en hann gekk af sviðinu.
Óhætt er að segja að mikil ólga sé víða í Bandaríkjunum vegna valdaskiptanna og voru mótmæli vítt og breitt um Bandaríkin í gær, og eru raun skipulögð fram eftir allri næstu viku. Mörg hundruð mótmælafundir hjá kvennahreyfingum í Bandaríkjunum hafa verið skipulagðir. Við Trump turninn, við 61. stræti skammt frá Central Park vestanmegin í New York, voru fjölmenn mótmæli í gær þar sem De Blasio borgarstjóri var meðal þeirra sem hvatti fólk til að þess að berjast gegn stjórn Trump og stjórnmálaáherslum hans.
Var framboð Trumps í samskiptum við Rússa?
Valdaskiptin nú eru ekki síst merkileg fyrir þær sakir að rannsókn stendur enn fyrir á því, hvort trúnaðarmenn úr framboði Trumps hafi verið í samskiptum við rússnesk stjórnvöld þegar hakkarar frá Rússlandi gerðu tölvuárásir í aðdraganda kosninga, með það að markmiði að ýta undir sigurlíkur Trumps. Leyniþjónustan CIA er með málin til rannsóknar en að mati stofnunarinnar eru yfirþyrmandi sannanir fyrir hendi sem staðfesta það að Vladímir Pútín Rússlandsforseti hafi verið með puttana í því þegar tölvuárásirnar voru gerðar.Trump hefur gert lítið úr þessu, en það hafa yfirmenn leyniþjónustu Bandaríkjanna ekki gert, segja mikilvægt að komast til botns í því hvernig Rússar beittu sér. Málið væri án fordæma þar sem stjórnvöld í öðru ríki hefðu ekki með viðlíka hætti skipt sér af framkvæmd kosninga í Bandaríkjunum.
Skuldar bönkum á Wall Street háar fjárhæðir
Þá hafa þingmenn Demókrata einnig kallað eftir því að formleg athugun fari fram á því að hvort Trump hafa aðskilið viðskiptahagsmuni sína nægilega vel, en hann á eignir upp á 3,7 milljarða Bandaríkjadala, samkvæmt Forbes, og skuldir bönkum á Wall Street í það minnsta 600 milljónir Bandaríkjadala í gegnum félög sín. Hann hefur sjálfur sagt að börn hans muni taka við stjórnartaumunum í viðskiptaveldinu og að engir hagsmunaárekstrar verði í hans valdatíð.
Þrátt fyrir skrautlega kosningabaráttu og afar umdeilda framkomu, svo ekki sé meira sagt, þá eru hagfræðingar og fjárfestar flestir á því að efnhagur Bandaríkjanna muni ekki taka kollsteypu undir stjórn Trumps, hvorki upp á við né niður á við. Einn þeirra sem telur bandarískan efnahag nú standa traustum, og að Trump muni líklega ekki breyta miklu hvað það varðar, er Warren Buffett, einn auðugasti maður heims. Hann studdi Hillary Clinton eindregið en í viðtali í New York í gær sagðist hann hafa trú á því að Trump myndi taka mark á ráðgjöfum hans, sem hann þekkti marga hverja persónulega og hefði mikið álit á.