Jamie Dimon, forstjóri JP Morgan, fékk samtals 28 milljónir Bandaríkjadala í bónusgreiðslu vegna ársins 2016, eða sem nemur um 3,2 milljörðum króna. Þetta er hækkun á upp á ríflega tvær milljónir Bandaríkjadala miðað við árið 2015.
Stærstu hluti greiðslunnar er í formi hlutabréfa, eða sem nemur um 22 milljónum Bandaríkjadala. Um 6 milljónir Bandaríkjadala eru síðan í reiðufé, eða sem nemur ríflega 700 milljónum króna, að því er segir í Wall Street Journal.
Dimon var orðaður við stöðu fjármálaráðherra í starfsliði Donalds Trumps, en gaf út yfirlýsingu um að hann hefði ekki áhuga á slíkri stöðu. Hann sagðist tilbúinn til þess að aðstoða eins og kostur væri en hann væri ekki tilbúinn að hætta störfum fyrir JP Morgan.
Markaðsvirði JP Morgan nemur nú tæplega 300 milljörðum Bandaríkjadala, eða sem nemur um 34 þúsund milljörðum króna.