Donald J. Trump, sem tók við embætti forseta Bandaríkjanna i gær, númer 45 í röðinni, lét strax til sín taka eftir að hann var orðinn forseti.
Á vef breska ríkisútvarpsins BBC var hann sagður vera tilbúinn með tilskipanir sem draga til baka mörg af stefnumálum Baracks Obama, þar á meðal mál sem tengjast umhverfismálum og baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Hefur vefsíða Hvíta hússins, sem hélt utan um gögn er vörðuðu vinnu yfirvalda þegar kom að loftslagsbreytingum, verið fjarlægð.
Trump hefur sérstaklega gefið til kynna að hann ætli að draga Obamacare, heilbrigðisstefnuna sem Barack Obama barðist sem mest fyrir á sínum valdatíma, til baka en um 20 milljónir Bandaríkjamenn hafa fengið heilbrigðistryggingu í gegnum þá stefnu. Obama hefur sérstaklega varað við þessu og sagt að stjórnvöld verði að tryggja að það komi eitthvað annað sambærilegt í staðinn.
Fastlega er búist við því að Trump kynni fljótt stefnu sína í efnahagsmálum, meðal annars sem snúa að viðskiptasamningum við Mexíkó og fleiri ríki.
Í ræðu sinni í gær lagði hann áherslu á að Bandaríkin þyrftu að ná vopnum sínum aftur og í þetta skiptið yrði enginn „skilinn útundan“. Þá boðaði hann sérstakan dag sem tileinkaður verður föðurlandsást og talaði fyrir því að Bandaríkjamenn þyrftu að vita alla daga að Bandaríkinu „væru frábær“.
Í fjölmiðlum hefur Trump verið gagnrýndur fyrir ræðu sína, en einnig fengið mikið hrós frá stuðningsmönnum sínum á samfélagsmiðlum. Í New York Times var hann sagður hafa boðað „tæra þjóðernishyggju“.