Hagsmunasamtök bænda í Bandaríkjunum eru ósátt við að Donald J. Trump hafi þegar ákveðið að draga Bandaríkin út úr TPP-samningarviðræðunum svonefndu, en markmiðið með þeim er að styrkja verslun og viðskipti á risavöxnu svæði í heiminum, sem teygir sig til Ameríku, Asíu og Ástralíu.
Ron Kirk, sem var yfir fríverslunarsamningum Bandaríkjastjórnar á árunum 2009 til 2013, segir að ákvörðun Trumps sé mikið áfall fyrir landbúnað í Bandaríkjunum og að hún muni hafa afleiðingar. Störf muni tapast og samkeppnisskilyrði matvælafyrirtækja í landinu versna. „Ég skil ekki hver er hugsunin að baki þessari ákvörðun,“ segir í Kirk í viðtali við CNBC.
Stærstu landbúnaðarríki Bandaríkjanna eru meðal annars Indíana, Ohio og Nebraska.
Samningurinn hefur ekki ennþá verið kláraður en hefur verið í vinnslu árum saman. Bloomberg greindi frá því í gær að stjórnvöld í Kína væru ánægð með ákvörðun Bandaríkjanna þar sem samkeppnisstaða Kína gæti styrkst.
Miklir hagsmunir eru undir í þessum samningum enda svæðið mjög vaxandi. Meira en þriðjungur íbúa jarðar búa innan landanna sem eiga aðild að samningunum. Ásamt Bandaríkjunum hafa Ástralía, Brunei, Kanada, Chile, Japan, Malasía, Mexíkó, Nýja Sjáland, Perú, Singapúr og Víetnam.
Kína á ekki aðild að samningunum en í ljósi þess að Bandaríkin ætla sér ekki að halda áfram í viðræðunum þá gætu Kínverjar séð sér leik á borði, og styrkt stöðu sína á markaði enn frekar. Það sama má segja um Kanada en stjórnvöld þar hafa sagt að ástæðulaust sé að hætta viðræðunum þrátt fyrir að Bandaríkin ætli sér ekki áframhaldandi þátttöku.