Fleiri og fleiri íbúar á Norðurlöndum eru í yfirvigt samkvæmt niðurstöðum rannsóknar sem gerð var á vaxtarlagi norræns fólks. Ísland sker sig frá hinum Norðurlöndunum því meira en helmingur fullorðinna eru í yfirvigt hér á landi.
Rannsóknin var unnin við matvæladeild Tækniháskólans í Danmörku (DTU) í samstarfi við rannsóknarteymi frá Svíþjóð, Noregi, Finnlandi og Íslandi. Athuganir í rannsókninni voru gerðar á árunum 2011 til 2014 og niðurstöðurnar birtar fyrr í vikunni.
„Það er vinsælt að segja að Íslendingar séu Ameríkanar Norðurlandanna,“ er haft eftir Jeppe Matthiessen, einn þeirra sem vann að rannsókninni við DTU-háskólann í Kaupmannahöfn, á vef danska ríkisútvarpsins. „Hér eru tveir af hverjum þremur körlum í yfirvigt og fimmti hver karl og kona eru í mikilli yfirvigt.“
Meðaltal líkamsþyngdarstuðuls (Body Mass Index, BMI) íbúa Norðurlanda hækkaði á rannsóknartímabilinu, mest meðal Íslendinga og Norðmanna. BMI er aðferð til þess að leggja mat á holdarfar fólks. Þyngdarstuðull einstaklings er fundinn með því að deila þyngd með hæð í öðru veldi (kg/m2). Þyngdarstuðullinn er sú mælieining sem notuð er í viðmiðunarmörk Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar til þess að kanna offitu, ofþyngd, kjörþyngd og vannæringu í samfélögum.
Hækkunina á meðaltali líkamsþyngdarstuðulsins má rekja til hækkunar meðaltals stuðulsins meðal kvenna, þá sérstaklega á Íslandi og í Noregi. Ekki var hægt að greina breytingu á meðaltali stuðulsins á tímabilinu meðal karla í löndunum fimm.
Land | Yfirvigt/offita | Offita |
---|---|---|
Svíþjóð | 44,8% | 10,1% |
Danmörk | 47,3% | 13,3% |
Noregur | 47,5% | 14,0% |
Finnland | 48,1% | 14,8% |
Ísland | 59,6% | 21,0% |
Fleiri í yfirvigt
Meginniðurstöður rannsóknarinnar eru að matarræði fleiri Norðurlandabúa var óhollt árið 2014 en árið 2011. Á sama tíma fækkaði þeim sem neyttu holls matarræðis. Sömu staðlar voru notaðir í öllum löndunum sem rannsökuð voru þegar mat var lagt á það hversu hollt mataræði fólks var.
Af öllum þeim fæðuflokkum sem rannsakaðir voru var aðeins að merkja jákvæða þróun í einum flokki; Þegar kemur að matvælum með viðbættum sykri var þróunin jákvæð í Danmörku, Finnlandi og í Noregi en engin breyting var merkjanleg á Íslandi og í Svíþjóð, hvað þetta varðar.
Helsta ástæða þess að fleiri íbúar Norðurlanda voru í yfirvigt í lok rannsóknartímabilsins en í upphafi þess er talin vera hreyfingarleysi. Í niðurstöðum rannsóknarinnar er greint frá því að þriðjungur íbúanna eru hreyfingarlausir og þrír af hverjum tíu eyða meira en fjórum klukkustundum á dag fyrir framan tölvu eða sjónvarp.
„Í dag er það orðið nær venjulegt að vera fullorðinn einstaklingur í yfirvigt eða glíma við offitu,“ segir í samantekt niðurstaðna rannsóknarinnar. Enn fremur segir að það sé áhyggjuefni hversu margir eru hreyfingarlausir, hreyfa sig lítið og hversu margir glíma við yfirvigt. „Þrátt fyrir þetta er hægt að merkja jákvæða aukningu í hlutfalli þeirra sem hreyfa sig mikið. Þessar niðurstöður gætu bent til þess að aukin pólun sé að verða meðal fólks þegar kemur að hreyfingu fullorðinna á Norðurlöndum.“
14% reykja daglega, 45% fara á fyllerí
Í rannsókninni var neysla áfengis og tóbaks könnuð í fyrsta sinn. Hver Norðurlandabúi drekkur áfengi að meðaltali 1,7 sinnum í hverri viku og hlutfall þeirra sem fara á fyllerí var 45 prósent fullorðinna árið 2014.
Hlutfall þeirra sem reyktu var 21 prósent en hlutfall þeirra sem reyktu daglega var 14 prósent á Norðurlöndum.